Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 24. mars 2023 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Steini um heimslistann: Er bara bull að mörgu leyti
Icelandair
Steini hér með aðstoðarmanni sínum, Ásmundi Haraldssyni.
Steini hér með aðstoðarmanni sínum, Ásmundi Haraldssyni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska kvennalandsliðið hefur aldrei verið eins ofarlega á heimslista FIFA og núna. Nýr heimslisti var kynntur í morgun og þar er Ísland í 14. sæti en það er nýtt met hjá okkar stelpum.

Frá síðustu útgáfu listans hefur Ísland spilað þrjá leiki og unnið tvo, gegn Skotlandi og Filippseyjum, og gert eitt jafntefli gegn Wales á Pinatar Cup.

Ísland fór með sigur á Pinatar Cup æfingamótinu og bætti þar bikar í safnið.

Aldrei hefur Ísland verið ofar á heimslistanum en fyrir var 15. sætið besti árangurinn.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, sat fyrir svörum í Laugardalnum í dag er nýr hópur var gefinn út. Hann var spurður út í heimslistann af fréttamanni Fótbolta.net.

„Það er alltaf gaman að sjá þetta svo sem, en heimslistinn er bara bull að mörgu leyti. Við erum í 14. sæti á heimslistanum en erum í tólfta sæti á Evrópulista UEFA sem miðar bara við keppnisleiki. Þú getur valið þér andstæðinga í keppnisleikjum og unnið alla leiki, þá ferðu mjög hátt á heimslistanum," sagði Þorsteinn og bætti við að heimslistinn væri ekki marktækur að miklu leyti.

Krefjandi leikir framundan
Næsta verkefni liðsins eru tveir vináttuleikir í apríl. Ísland mætir Nýja Sjálandi í Antalya í Tyrklandi 7. apríl og Sviss í Zürich í Sviss 11. apríl.

Þorsteinn kom inn á það á fundinum að þetta væru krefjandi leikir, að við hefðum ekki unnið Sviss frá því að Vanda Sigurgeirsdóttir, núverandi formaður KSÍ, var í íslenska landsliðinu. Liðið er að sækja sér krefjandi leiki núna til að undirbúa sig fyrir Þjóðadeildina síðar á árinu. Leikirnir þar verða mjög krefjandi og skipta máli upp á það að komast inn á stórmót.
Athugasemdir
banner