Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mið 24. júlí 2024 16:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Marvin í leit að nýju liði: Fékk ekki þau tækifæri sem ég var að búast við
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Fótbolti.net fjallaði um það í byrjun mánaðar að Marvin Darri Steinarsson væri á förum frá Vestra. Marvin var varamarkvörður fyrir William Eskelinen hjá Vestra fyrri hluta tímabilsins.

Marvin er samningsbundinn Vestra út næsta tímabil en er frjálst að finna sér nýtt lið og spila á láni út þetta tímabil. Hann var öflugur seinni hluta síðasta tómabilsins þegar hann fór í markið hjá Vestra og hjálpaði liðinu að vinna sér sæti í Bestu deildinni.

„Ég er á Akranesi, er uppalinn hér og hef verið hér síðan ég fæddist," sagði Marvin við Fótbolta.net í dag.

„Ég sótti um í skóla hér á Akranesi og flutti heim til að klára það nám. Ég talaði við Samma og óskaði eftir því að fá að fara. Hann leyfði mér það og ég hef æft með ÍA síðan. Þetta var blanda af því að ég ætlaði að fara í skóla og svo var ég náttúrulega ekki sáttur með mínúturnar í sumar. Mér fannst ég þurfa að breyta til að fá spiltíma."

Marvin er að fara læra rafvirkjun. Hann er meðvitaður um áhuga á sér.

„Ég er búinn að æfa með ÍA síðan ég flutti heim og þeir hafa sýnt mér áhuga. Það væri þó einungis sem varamarkvörður fyrir Árna (Marinó). Fyrsti kostur væri að fara eitthvert þar sem ég fengi traust og fengi að spila fótbolta. Maður er í þessu fyrir það."

Marvin var bjartsýnn á að fá að spila í sumar með Vestra þegar farið var inn í undirbúningstímabilið.

„Ég kem inn í veturinn eftir síðasta tímabil þar sem ég spilaði seinni part tímabilsins og umspilið þar sem við fórum upp. Ég átti gott tímabil og það leit allt út fyrir að ég væri að fara spila, en allt kom fyrir ekki. Ég fékk þessa tvo bikarleiki, en hef ekki fengið neitt fyrir utan það. Væntingarnar voru að vera markmaður númer eitt og var ekkert sáttur við að fá ekki að spila."

„Fyrsta markið á móti KA í bikarnum var hornspyrna sem ég misreiknaði og boltinn fór inn. Hefði ég gert betur þar, þá veit maður ekki hvað hefði gerst. Ég fékk ekki þau tækifæri sem ég var að búast við,"
sagði hinn 23 ára gamli Marvin.

Á ferlinum hefur hann spilað með meistaraflokki Skallagríms, Kára og Víkingi Ólafsvík. Hann skipti yfir í Vestra fyrir tímabilið 2022, lék ellefu leiki það sumarið og níu leiki á síðasta tímabili.

„Ég er alveg tilbúinn að bíða út gluggann eftir liði þar sem ég fengi að spila. En í draumaheimi gerist þetta hraðar. Mig langar að fara spila."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner