Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   mið 24. júlí 2024 10:43
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Óskarlisti KR: Uppaldir snúa heim
Óskar Hrafn.
Óskar Hrafn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ástbjörn Þórðarson.
Ástbjörn Þórðarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Guðmundur Andri.
Guðmundur Andri.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það fljúga nokkrar slúðursögur úr Vesturbænum yfir í aðra hluta borgarinnar og út fyrir höfuðborgarsvæðið þessa dagana.

Félagaskiptaglugginn er opinn og eru nokkrir leikmenn sterklega orðaðir við KR. Það var einstaklega lítil reynsla á varamannabekk KR gegn Breiðabliki um liðna helgi, leikmenn í meiðslum og leikbönnum, en KR-ingar vilja þrátt fyrir það stækka hópinn.

Óskar Hrafn Þorvaldsson, sem tilkynntur var sem verðandi yfirmaður fótboltamála hjá KR fyrr í þessum mánuði, er sagður vera að skoða hvaða möguleikar eru í boði.

Þeir leikmenn sem eru hvað mest orðaðir við félagið eru uppaldir KR-ingar. Ástbjörn Þórðarson var fyrr á þessu ári orðaður við KR og hefur sú saga aftur sprottið upp að hann gæti verið á leið í uppeldisfélagið.

Ástbjörn er á síðasta ári samningsins við FH. Sömu sögu má segja af Gyrði Hrafni Guðbrandssyni sem er sömuleiðis uppalinn í KR. Ein af slúðursögunum er sú að KR sé að reyna sannfæra FH um að hleypa þeim strax í KR í skiptum fyrir Kristján Flóka Finnbogason. Kristján Flóki er framherji og FH er í framherjaleit þar sem Úlfur Ágúst Björnsson er á leið til Bandaríkjanna í háskólanám. KR-ingar sjá þarna tækifæri til að heilla FH með uppöldum FH-ingi og tækifæri til að losa Flóka sem hefur ekki náð að sína mikið af sínum bestu hliðum.

KR er búið að semja við Alexander Helga Sigurðarson um að koma eftir tímabilið frá Breiðabliki. Þegar Alexander fór af velli gegn KR um helgina sungu KR-ingar um hann og buðu hann velkominn í KR. KR hefur samkvæmt heimildum Fótbolta.net reynt að kaupa Alexander í glugganum en Breiðablik hafnaði því tilboði.

Þá hefur KR mikinn áhuga á því að endurheimta Guðmund Andra Tryggvason frá Val en Guðmundur Andri er uppalinn í KR.

Ef KR er í leit að fleiri uppöldum leikmönnum þá gæti liðið farið í efri byggðir Kópavogs og kannað hvort hægt sé að fá Atla Hrafn Andrason frá HK en hann er á samningsári. Einnig er Tryggvi Snær Geirsson hjá Fram uppalinn í KR en hann er sá eini hér sem ekki er á síðasta ári samnings.

Þess má geta að Óskar þjálfaði þá Atla, Ástbjörn, Gyrði, Guðmund Andra og Tryggva alla í yngri flokkum KR.

Þeir leikmenn erlendis sem hafa verið orðaðir við KR eru Viðar Ari Jónsson hjá Ham-Kam en hann á hálft ár eftir af samningi sínum, Hólmbert Aron Friðjónsson sem er án félags og þá var Guðlaugur Victor Pálsson, leikmaður Eupen, orðaður við KR snemma á þessu ári.

Önnur slúðursaga sem heyrist þessa dagana er að það verði ekkert úr því að Óskar Hrafn Þorvaldsson taki við sem yfirmaður fótboltamála. Gengi KR hefur verið hörmulegt og mun hann sjálfur taka við stjórnartaumunum til að reyna stýra skútunni í rétta átt.

Næsti leikur KR er á heimavelli gegn funheitu liði KA næsta mánudag.
Besta-deild karla
Lið L U J T Mörk mun Stig
1.    Breiðablik 21 14 4 3 48 - 25 +23 46
2.    Víkingur R. 20 13 4 3 47 - 23 +24 43
3.    Valur 21 10 5 6 49 - 32 +17 35
4.    FH 21 9 5 7 36 - 35 +1 32
5.    ÍA 21 9 4 8 40 - 31 +9 31
6.    Stjarnan 21 9 4 8 39 - 35 +4 31
7.    KA 21 7 6 8 32 - 37 -5 27
8.    Fram 21 7 5 9 28 - 29 -1 26
9.    KR 20 5 6 9 34 - 39 -5 21
10.    HK 21 6 2 13 23 - 51 -28 20
11.    Vestri 21 4 6 11 22 - 42 -20 18
12.    Fylkir 21 4 5 12 26 - 45 -19 17
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner