Orri Steinn Óskarsson byrjaði á varamannabekknum í 2-3 sigri FCK í nágrannaslag gegn Bröndby í toppbaráttu danska boltans í dag.
Kaupmannahöfn er á toppinum með 22 stig eftir 9 umferðir, fjórum stigum meira en Bröndby sem situr eftir í þriðja sætinu.
Bröndby var talsvert sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og voru heimamenn óheppnir að leiða aðeins með einu marki í leikhlé. Jacob Neestrup gerði taktískar breytingar í hálfleik og skipti Orra Steini meðal annars inn og við það breyttist leikurinn.
Kaupmannahöfn stjórnaði ferðinni í síðari hálfleik og endaði á að vinna leikinn þökk sé varamönnunum. Orri átti stoðsendingu á meðan Roony Bardghji setti tvennu og þá átti Viktor Claesson einnig frábæra innkomu.
„Ég gerði breytingar fyrir leik sem virkuðu augljóslega ekki. Við vorum yfirspilaðir í fyrri hálfleik og ég tek það á mig, en leikmennirnir sýndu hversu gæðamiklir þeir eru með endurkomunni í síðari hálfleik. Þegar þjálfarinn á slæman dag á skrifstofunni geta leikmennirnir stundum bjargað honum," viðurkenndi Neestrup að leikslokum.
„Orri, Claesson og Roony Bardghji hafa verið þrír reiðustu menn Kaupmannahafnar síðan þeim var sagt að þeir yrðu ekki í byrjunarliðinu í dag. Það er gott að sjá hvað þeir komu inn af miklum krafti.
„Ég stilli því liði upp sem ég tel eiga bestu sigurmöguleikana hverju sinni. Þess vegna tók ég þessar ákvarðanir en leikmenn eins og Viktor (Claesson) sendu skýr skilaboð með þessari innkomu af bekknum."
Kaupmannahöfn tekur einnig þátt í riðlakeppni Meistaradeildarinnar og náði þar jafntefli á útivelli gegn Galatasaray í fyrstu umferð. Dönsku meistararnir eru einnig með stórveldunum FC Bayern og Manchester United í svakalegum riðli, þar sem búast má við að FCK muni berjast við Galatasaray um þriðja sætið.