Mbeumo, Wirtz, Diomande, Quenda, Nypan, Van Nistelrooy, Cherki og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   þri 24. október 2023 16:21
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Andri Rúnar: Var búinn að lofa Samma þessu fyrir langalöngu
Andri Rúnar fagnaði með Vestramönnum eftir úrslitaleik umspilsins á Laugardalsvelli.
Andri Rúnar fagnaði með Vestramönnum eftir úrslitaleik umspilsins á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Spilaði með Val í sumar.
Spilaði með Val í sumar.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Elmar fyrirliði og Sammi formaður.
Elmar fyrirliði og Sammi formaður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Markahrókurinn Andri Rúnar Bjarnason var á línunni í útvarpsþættinum Fótbolti.net um liðna helgi þar sem hann ræddi um félagaskipti sín til Vestra.

Andri Rúnar hefur leikið með ÍBV og Val eftir að hann kom heim úr atvinnumennsku en hann er uppalinn fyrir vestan og þekkir býsna vel til á svæðinu. Hann segir að það hafi verið mjög augljóst að hann myndi fara í Vestra eftir að liðið tryggði sér sæti í Bestu deildinni.

„Það var eiginlega bara gefið. Ég var búinn að lofa Samma (formanni Vestra) þessu fyrir langalöngu. Ég var alltaf að fara vestur þegar það varð ljóst að þeir færu upp," sagði Andri Rúnar en hann var auðvitað mættur á Laugardalsvöll þegar Vestri vann úrslitaleik umspilsins í Lengjudeildinni.

„Þetta var svolítið sérstakt. Maður var umkringdur vinum og vandamönnum, og maður þekkti alla í þessum hluta stúkunnar. Þetta var gæsahúðaraugnablik."

Andri hefði líklega ekki farið heim til Vestra á þessum tímapunkti ef liðið hefði ekki farið upp.

„Ég hugsa ekki á þessum tímapunkti. En ég var búinn að lofa Samma að ef þeir færu upp í efstu deild þá myndi ég ekki missa af tækifærinu."

„Mér líst ótrúlega vel á þetta lið. Varnarleikurinn var gjörsamlega geggjaður í sumar og hafsentaparið kom mér virkilega á óvart. Þessi liðsheild sem Davíð Smári hefur búið til, það er eitthvað sérstakt við þetta. Það verður held ég ekki auðvelt fyrir önnur lið að koma vestur næsta sumar," sagði Andri.

Æltaði sér að vinna titil með Val
Andri gekk í raðir Vals fyrir síðasta tímabil og spilaði hann 21 leik og skoraði fjögur mörk í Bestu deildinni. Hann hefði viljað fá stærra hlutverk þegar leið á tímabilið.

„Eftir á er ég auðvitað svekktur að hafa ekki spilað meira. Mér fannst pínu ósanngjarnt að þegar ég er tekinn út, að þá erum við að vinna og þá erum við að skora. Ég fór í Val því mér langaði að vinna eitthvað. Ég var ekki að spila hvern leik til að reyna að skora. Ég var að taka óeigingjörn hlaup og það voru margir að skora í kringum mig. Mér var alveg sama (um mörk). Mér fannst pínu sérstakt þegar ég datt út því það var talað um að við yrðum tveir skipta hlutverkinu á milli okkar þegar hann (Patrick Pedersen) yrði heill. En svo var mér bara kippt út eins og það hefði verið fyrirfram ákveðið. Mér fannst ekki sanngjarnt að ég var ekki látinn í upphafi vita að það yrði þannig," segir Andri.

„Ég geri mér grein fyrir því að þetta er Vals goðsögn. Ég er bara að segja að það voru leikir þar sem við vorum ekki að skora og ég var að koma inn á þegar fimm mínútur voru eftir. Mér fannst það skrítið miðað við hversu vel gekk þegar ég var að spila. Ég er alls ekkert að setja út á Patrick því hann var frábær þegar hann komst á skrið."

„Ég fór þarna til að vinna og mér fannst vera nokkrir leikir þar sem úrslitin hefðu getað verið öðruvísi ef ég hefði fengið meira en þrjár eða fjórar mínútur. Við hefðum getað spilað meira saman, ég og Patrick. Ég fór til að vinna eitthvað og við unnum ekki. Það eru vonbrigði, en þetta var skemmtilegt sumar samt sem áður. Það var gaman að upplifa atvinnumannastemningu á Íslandi."

Hér fyrir neðan má hlusta á viðtalið í heild sinni þar sem Andri Rúnar talar um það að Vestramenn séu að hugsa stórt fyrir næsta tímabil í Bestu deildinni.
Útvarpsþátturinn - Hræringar, Heimaleikurinn og Valgeir Lunddal
Athugasemdir
banner
banner