Cristiano Ronaldo myndi hafa meiri áhrif á MLS-deildina í Bandaríkjunum en Lionel Messi. Þetta segir Brek Shea, fyrrum leikmaður Inter Miami í viðtali við JackpotCityCasino.
Shea spilaði stærstan hluta ferilsins í Bandaríkjunum en spilaði rúmt ár á Englandi með Stoke, Barnsley og Birmingham ásamt því að eiga 34 A-landsleiki með Bandaríkjamönnum.
Hann ræddi um áhrif Messi á MLS-deildina, en hann viðurkennir að þau séu vissulega mikil, en að þau hefðu verið meiri hefði Ronaldo ákveðið að spila í Bandaríkjunum.
„Ég held að Cristiano Ronaldo hefði haft meiri áhrif á MLS-deildina en Lionel Messi,“ sagði Shea.
„Ég er ekki að reyna vanvirða Messi, en hann virðist bara svo heimakær. Hann er mjög hljóðlátur og talar tungumálið ekki nógu vel, alla vega enn sem komið er. Ronaldo virkar á mig sem frjálslegri og gerir fleiri hluti og er meira í sviðsljósinu.“
„Þannig þegar ég pæli í því þá talar Ronaldo tungumálið, fer í viðtöl og það hefði sjálfkrafa haft meiri áhrif. Ég er aðeins að tala um hluti utan vallar, og er alls ekki viss um að hann hefði skilað sömu tölum og Messi, en hefðu áhrifin verið meiri? Já, klárt mál,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir



