
Þorsteinn Halldórsson þjálfari kvennalandsliðsins var til viðtals hjá Fótbolta.net eftir æfingu liðsins í dag þar sem áhorfendur voru viðstaddir.
Þorsteinn hafði mjög gaman af þessu þrátt fyrir að hávær tónlist hafi aðeins truflað samskiptin á vellinum. Hann er mjög ánægður með áhugann á landsliðinu.
„Tvímælalaust, það er frábært að sjá fólk mæta og fylgjast með, virkilega gaman. Þetta gefur leikmönnum orku fyrir framhaldið að sjá raunverulega hver stuðningurinn er, virkilega gaman," sagði Þorsteinn.
Sara hefur ekki verið með landsliðinu allan tíman þar sem hún skrapp til Ítalíu til að skrifa undir samning við Juventus. Truflar það eitthvað undirbúninginn?
„Nei, við töldum það bara rétt að hún myndi klára þetta strax svo að spurningaflaumið myndi hætta og hennar staða væri klár og hún gæti farið að einbeita sér af EM," sagði Þorsteinn.
Þorsteinn er ánægður með þetta skref hjá Söru.
„Já þetta er flott. Juventus er flottur klúbbur og er að gera frábæra hluti á Ítalíu, ég held að þetta sé virkilega gott skref hjá henni,"
Juventus varð tvöfaldur meistari á Ítalíu á síðustu leiktíð en tapaði í 16 liða úrslitum gegn Lyon, þáverandi liði Söru Bjarkar en Lyon stóð uppi sem sigurvegari í keppninni að lokum eftir sigur á Barcelona í úrslitum.