„Ég er ekkert eðlilega fúll," sagði Anton Ari Einarsson, markvörður Breiðabliks, eftir 0-2 tap gegn FC Kaupmannahöfn í forkeppni Meistaradeildarinnar á Kópavogsvelli í kvöld.
Lestu um leikinn: Breiðablik 0 - 2 FCK
„Ég geri mistök sem ég á ekki að gera í fyrsta markinu. Þannig breytist leikurinn ótrúlega mikið og ég er hundfúll með það."
Það tók FCK um það bil 40 sekúndur að skora fyrsta mark leiksins en þá gerði Anton slæm mistök.
„Ég tek alltof seint ákvörðun að fara út að hreinsa boltann, ég hreinsa honum í sóknarmanninn þeirra sem skorar svo í autt markið. Þetta er ótrúlega lélegt hjá mér og ég á að gera betur."
„Mér fannst við spila mjög vel og ef nokkrir hlutir hefðu dottið öðruvísi þá hefðu úrslitin verið önnur, en svona er boltinn."
Anton viðurkennir að hann muni eiga erfitt með svefn í nótt. „Það er ótrúlega svekkjandi hvernig þetta spilast, ég er með ótrúlega léleg og dýrkeypt mistök eftir eina mínútu. Það breytir öllu. Ég er ekki að fara að sofa mikið í nótt, ég get lofað þér því. Maður svekkir sig á þessu en maður þarf að reyna að vera snöggur að því að gleyma þessu og læra af þessu."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir