„Ég hefði nú að öllu ójöfnu viljað fá þrjú stig," sagði Elísa Viðarsdóttir, leikmaður Vals, eftir jafntefli gegn í KR í Pepsi-deild kvenna í dag.
Lestu um leikinn: KR 0 - 0 Valur
„Mér fannst við spila ágætan bolta, sérstaklega í seinni hálfleik. Mér fannst við opna þær og finna svæðin á bak við bakverðina þeirra. Við hefðum mátt nýta færin betur."
Elísa, sem er landsliðskona, er að snúa aftur á fótboltavöllinn eftir krossbandsslit og þá eignaðist hún sitt fyrsta barn fyrr á árinu. Hún var búin að spila 14 mínútur fyrir leikinn í dag, en hún lék allan seinni hálfleikinn í Vesturbænum.
„Mér líður mjög vel, þetta er allt að koma. Maður er bara að safna mínútum í bankann," sagði Elísa.
„Mér líður rosalega vel. Ef ég á að segja sjálf frá þá er ég tilbúin að spila 90 mínútur, en maður þarf víst að fara ákveðinn tröppugang þegar maður er að koma til baka eftir krossbandsslit og þá sérstaklega kannski barneignir líka."
Viðtalið er í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir
























