
Hákon Arnar Haraldsson skoraði sitt fyrsta A-landsliðsmark í kvöld er Ísland valtaði yfir Liechtenstein, 7-0, í Vaduz.
Skagamaðurinn hefur verið frábær með FCK á þessu tímabili og komið virkilega sterkur inn í landsliðið en fyrsta markið leit ekki dagsins ljós fyrr en í leiknum í kvöld.
Hann skoraði með góðri afgreiðslu eftir fyrirgjöf Arons Einars Gunnarssonar, en Hákon hefði auðveldlega getað skorað þrennu í þessum leik.
Eitt mark var dæmt af honum í fyrri hálfleik og þá kom hann sér í nokkur ákjósanleg færi, en hann sættir sig að taka eitt mark með sér úr þessu verkefni.
„Jú, þetta er í annað skiptið á árinu sem maður vinnur 7-0 og geggjuð tilfnning. Það er helvíti sterkt og mikilvægt hjá okkur að stoppa ekki þegar við komumst í 1-0 og keyra áfram og taka mark, mark og mark og klára þetta 7-0. Algjör klassi.“ sagði Hákon við Fótbolta.net
„Það er geggjað að vera kominn með fyrsta markið og þau hefðu auðveldlega getað verið þrjú en það kemur seinna. Fínt að klára fyrsta markið.“
„Það segir hvað við vorum einbeittir í dag og hvað við vorum með mikinn fókus á verkefninu. Við vinnum 7-0 og hefðum auðveldlega getað unnið 10-0. Gott 'sign' að við vorum svona fókuseraðir í dag.“
„Þetta var ekki nógu gott í Bosníu og klára þetta verkefni með 7-0 sigri og taka þetta inn í næsta verkefni. Það er fullkomið.“
Ísland á stóran glugga í sumar en þá mætir liðið Slóvakíu og Portúgal á Laugardalsvelli.
„Það eru tveir heimaleikir og við þurfum að vinna Portúgal og Slóvakíu. Þetta eru tveir mjög mikilvægir leikir og þurfum að vera klárir í sumar og eigum að vera sterkir á heimavelli. Við fögnum þessu í kvöld og hafa gaman í 24 tíma og svo fókusera á Nordsjælland næstu helgi, við erum einu stigi á eftir og þetta er náttúrulega toppslagur,“ sagði hann í lokin.
Athugasemdir