Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 26. september 2022 13:44
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ákvarðanir Southgate þykja furðulegar - „Þetta er mikill missir"
Gareth Southgate.
Gareth Southgate.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fikayo Tomori fær ekki sénsinn þrátt fyrir að hafa spilað frábærlega með ítölsku meisturunum í AC Milan.
Fikayo Tomori fær ekki sénsinn þrátt fyrir að hafa spilað frábærlega með ítölsku meisturunum í AC Milan.
Mynd: EPA
Gareth Southgate, landsliðsþjálfari Englands, er ekki sérlega vinsæll á meðal almennings og fjölmiðlafólks í landinu þessa stundina.

Southgate kom liðinu í undanúrslit HM 2018 og í úrslitaleik EM á síðasta ári en stór hluti þjóðarinnar hefur núna snúist gegn honum. Hann þykir spila of neikvæðan fótbolta og hafa úrslitin ekki verið góð upp á síðkastið.

England er fallið úr A-deild Þjóðadeildarinnar, en liðið spilar gegn Þýskalandi í kvöld þar sem ekki er mikið undir.

Ákvarðanir sem Southgate hefur tekið í aðdraganda þessa leiks hafa ekki vakið mikla lukku en hann ákvað að skilja bæði Fikayo Tomori og Alexander-Arnold utan hóps. Hvorugur þeirra fékk mínútu gegn Ítalíu um daginn.

Southgate ætlar að setja traustið áfram á sömu leikmenn, en mikið er talað um það í Englandi að leikmenn komist áfram í liðið án þess að þeir séu að spila vel - ákveðnir leikmenn séu í uppáhaldi hjá honum og fái alltaf að spila.

Henry Winter, einn virtasti blaðamaður Bretlands, setur stórt spurningamerki við það hversu lítið hlutverk Alexander-Arnold fær hjá þjálfaranum.

„Ég virði það mikið að Trent Alexander-Arnold haldi áfram að mæta í landsliðið jafnvel þó svo að hann viti að þjálfarinn, Gareth Southgate, hafi enga trú á honum. Það er verið að sóa hans hæfileikum og þetta er mikill missir fyrir enska landsliðið," skrifar Winter sem starfar fyrir The Times.

Alexander-Arnold hefur ekki byrjað tímabilið sérstaklega vel hjá Liverpool en hann er búinn að vera algjörlega magnaður fyrir sitt félagslið síðustu ár.

Annar leikmaður sem hefur verið magnaður fyrir félagslið sitt er Fikayo Tomori, sem spilar með AC Milan. Hann fær ekki heldur tækifærið hjá Southgate. Það hefur vakið furðu hjá mörgum.

Það er óhætt að segja að Englendingar séu ekki bjartsýnir fyrir HM í Katar, allavega ekki miðað við það hvernig liðið hefur verið að spila upp á síðkastið.




Athugasemdir
banner
banner
banner