Bayern hefur gert tilboð í Díaz - Liverpool vill Ekitike
banner
   mán 26. október 2020 23:46
Ívan Guðjón Baldursson
Yfirnjósnari Norrköping staðfestir áhuga frá stórliðum: Aldrei séð annað eins
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stig Torbjörnssen, yfirnjósnari Norrköping í sænsku toppbaráttunni, hefur miklar mætur á Ísaki Bergmanni Jóhannessyni og segir stórlið víða um Evrópu vera búin að setja sig í samband við félagið til að fylgjast betur með ungstirninu.

Stig segist aldrei hafa kynnst jafn miklum áhuga á einum leikmanni á starfsferli sínum en Liverpool, Juventus og Manchester United eru öll sögð fylgjast með Ísaki.

„Ég hef aldrei séð annað eins, þetta er algjörlega klikkað. Við vitum af áhuga frá stórliðum því þau hafa sett sig í beint samband við okkur," sagði Stig.

Ísak lék allan leikinn er Norrköping gerði 2-2 jafntefli við AIK í sænska boltanum í dag og svaraði spurningum um framtíðina að leikslokum.

„Ég hef alltaf haldið með Manchester United. Ég bjó í Manchester þegar faðir minn spilaði þar og horfði á marga leiki."

Fréttamaður spurði Ísak þá hvort ást hans á Man Utd myndi koma í veg fyrir möguleg félagaskipti til Liverpool.

„Ég get ekki sagt það, þeir eru að gera frábæra hluti. Man City og Liverpool hafa verið frábær að undanförnu," svaraði Ísak hlæjandi.

Ísak Bergmann á 15 ára frænda sem heitir Jóhannes Kristinn Bjarnason og þykir gríðarlega mikið efni. Hann er að æfa með unglingaliði Norrköping þessa dagana.

Sjá einnig:
Njósnari frá Liverpool sagður vera mættur á leik Norrköping
Þjálfari Norrköping: Ísak er besti leikmaður deildarinnar
Athugasemdir