Juventus segir nei við Rashford - Stærstu félögin á Englandi vilja Musiala - Olmo gæti farið frítt frá Barcelona
   þri 26. nóvember 2024 11:42
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Dóri Árna: Koma þeirra er yfirlýsing frá félaginu
'Þeir henta okkur gríðarlega vel og við erum hrikalega ánægðir að þeir hafi valið að ganga til liðs við okkur'
'Þeir henta okkur gríðarlega vel og við erum hrikalega ánægðir að þeir hafi valið að ganga til liðs við okkur'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óli Valur er sóttur til þess að spila á kantinum. Hann er keyptur frá Sirius í Svíþjóð en lék á láni með Stjörnunni í sumar.
Óli Valur er sóttur til þess að spila á kantinum. Hann er keyptur frá Sirius í Svíþjóð en lék á láni með Stjörnunni í sumar.
Mynd: Breiðablik
Ágúst Orri á æfingu með aðalliði Genoa síðasta vetur. Hann er U21 landsliðsmaður sem lék með Beiðabliki tímabilið 2023.
Ágúst Orri á æfingu með aðalliði Genoa síðasta vetur. Hann er U21 landsliðsmaður sem lék með Beiðabliki tímabilið 2023.
Mynd: Aðsend
Valgeir er uppalinn í HK og var orðaður við Breiðablik sumarið 2022, fyrir tímabilið 2024 og kom loks í félagið núna.
Valgeir er uppalinn í HK og var orðaður við Breiðablik sumarið 2022, fyrir tímabilið 2024 og kom loks í félagið núna.
Mynd: Breiðablik
Mjög ánægður með Kristófer Inga og lagði mikla áherslu á að endursemja við framherjann.
Mjög ánægður með Kristófer Inga og lagði mikla áherslu á að endursemja við framherjann.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Benedikt Waren í leik með Breiðabliki í janúar 2022.
Benedikt Waren í leik með Breiðabliki í janúar 2022.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnór Gauti og Dóri með Íslandsmeistaraskjöldinn.
Arnór Gauti og Dóri með Íslandsmeistaraskjöldinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Breiðablik varð Íslandsmeistari 2024 og fer meistaraleiðina í Evrópu næsta sumar.
Breiðablik varð Íslandsmeistari 2024 og fer meistaraleiðina í Evrópu næsta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í síðustu viku barst heldur betur liðsstyrkur í Smárann því þeir Ágúst Orri Þorsteinsson, Valgeir Valgeirsson og Óli Valur Ómarsson skrifuðu allir undir samning við Breiðablik, samninga sem gilda út tímabilið 2028.

Fótbolti.net ræddi við Halldór Árnason sem er þjálfari Íslandsmeistaranna.

„Það er gríðarleg ánægja með að fá þessa þrjá leikmenn góðu leikmenn. Það veitir ekki af því strax eftir tímabilið þá lagði Nóri (Arnór Sveinn Aðalsteinsson) skóna á hilluna, Oliver (Sigurjónsson) og Alexander (Helgi Sigurðarson) yfirgáfu okkur, Ísak (Snær Þorvaldsson) fór til Rosenborg, Benjamin (Stokke) fór heim til Noregs og Patrik (Johannesen) var seldur til Klaksvík, þannig það var mikilvægt fyrir okkur að reyna fylla einhver af þessum skörðum hratt og örugglega."

„Við getum ekki verið ánægðari með þessa leikmenn sem við höfum fengið, þeir eru allir gríðarlega metnaðarfullir, með gott hugarfar, með mikla hlaupagætu og færni. Þeir henta okkur gríðarlega vel og við erum hrikalega ánægðir að þeir hafi valið að ganga til liðs við okkur,"
segir Dóri.

„Kristófer Ingi er alvöru framherji"
Fréttaritari hjó eftir því að þeir leikmenn sem spiluðu hvað oftast sem fremsti maður, sem 'nía' á tímabilinu, Benjamin og Ísak, eru farnir. Enginn af þremenningunum sem mættu í síðustu viku er framherji. Vantar einn slíkan?

„Ég lagði mikla áherslu á að endursemja við Kristófer Inga (Kristinsson) því að hann er alvöru framherji, hörku 'nía'. Hann endaði undirbúningstímabilið og byrjaði tímabilið hjá okkur þannig að ef hann hefði haldist heill þá hefði hann getað eignað sér framherjastöðuna. Hann er frábær framherji, þó að hann geti spilað á köntunum líka, þá er hann framherji og við hugsum hann sem slíkan. Við erum rólegir með þá stöðu, erum mjög ánægðir með Kristó. Hann fór í aðgerð á báðum ökklum á dögunum og eitthvað í að hann byrji að æfa. Svo eru fleiri leikmenn sem geta leyst stöðuna. Við öndum allavega með nefinu í bili, skoðum markaðinn vel og sjáum til hvort við gerum meira í þeirri stöðu."

Valgeir bakvörður en Óli sóknarmaður
Valgeir og Óli Valur geta báðir spilað sem hægri bakverðir. Þeir geta báðir spilað fleiri stöður og Óli Valur spilaði framar á nýliðnu tímabili.

„Við sjáum Valgeir fyrir okkur sem bakvörð og Óla sem sóknarmann. Óli er í grunninn sóknarmaður, en eins og margir ungir menn þá færist hann aðeins neðar og fær fyrstu tækifærin sín með meistaraflokki sem bakvörður, stóð sig auðvitað mjög vel í þeirri stöðu og var seldur út sem slíkur. En mér fannst það sýna sig seinni partinn af tímabilinu 2024, þegar hann fór aftur í að mér finnst sína réttu stöðu, á kantinn. Hann er hrikalega öflugur þar og öll tölfræði sýnir að það eru fáir betri en hann í að fara á menn, hann er auðvitað mjög fljótur og mun nýtast okkur mjög vel framarlega á vellinum."

Allir þrír algjörir lykilmenn
Ágúst Orri er fæddur 2005, er uppalinn Bliki sem fór til Malmö 2022 og Genoa 2023. Er hann í dag tilbúinn að fara í stórt hlutverk í meistaraflokki Breiðabliks?

„Alveg pottþétt. Hann hefur tekið tvö stór skref, bæði til Malmö og Genoa, engir smá klúbbar sem keyptu hann og voru með miklar væntingar til hans. Hann æfði að hluta til með aðalliði Genoa og stóð sig vel. Hann var kannski í svolítið skrítinni stöðu, vissi ekki alveg hver hans staða var hjá Genoa. Svo þegar bauðst að fá hann aftur þá var það aldrei spurning. Við hugsum hann sem algjöran lykilmann eins og hina tvo. Hann er fyrst og fremst miðjumaður sem getur líka spilað á kantinum. Oliver, Alexander og Patrik eru allir farnir af miðsvæðinu og það veitti ekkert af því að bæta við þar."

Gætu allir farið erlendis aftur
Leikmennirnir eru á bilinu 19-22 ára. Það er möguleiki fyrir Breiðablik að selja þá aftur erlendis ef þeir standa sig hjá félaginu.

„Alveg klárt mál. Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að ungir leikmenn sem eru í stóru hlutverki hjá Breiðabliki og spila vel, þeir hafa alltaf vakið áhuga erlendis og margir hverjir verið seldir. Það er klárt mál að þeir hafi allir áhuga á því að fara aftur í atvinnumennsku, en ég held að enginn af þeim sé að flýta sér. Ég held að þeir vilji koma í Breiðablik núna, taka þátt í þessu verkefni; vinna titilinn aftur og ná langt í Evrópu - einbeitingin er þar, en auðvitað eru menn með metnað og langar að ná lengra. Við erum meðvitaðir um það og þannig hefur Breiðablik alltaf virkað; ungir menn hafa fengið tækifæri og svo farið erlendis ef þeir standa sig vel."

Góð ástæða fyrir því að þetta var þriðja tilraun
Valgeir hefur áður verið orðaður við Breiðablik, áður en hann fór til Örebro sumarið 2022 var hann sterklega orðaður við Blika.

„Við höfum haft áhuga á honum lengi, það er ekkert leyndarmál. Við höfðum líka áhuga á honum fyrir síðasta tímabil, en það gekk ekki upp. Við erum búnir að vera á eftir honum lengi, hann er frábær leikmaður, þroskaður og með ofboðslega sterkt hugarfar. Hann hentar því sem við viljum gera gríðarlega vel; er með ótrúlega mikla hlaupagetu, orkumikill, kraftmikill og góður í fótbolta. Það er góð ástæða fyrir því að við höfum farið á eftir honum þrisvar og ég held að flest liðin á landinu hafi verið á eftir honum núna. Það er risastórt að hann hafi valið Breiðablik. Það er ekki auðvelt verandi uppalinn í HK."

Í góðri stöðu til að heilla öfluga leikmenn
Valgeir og Óli Valur voru orðaðir við fleiri félög en völdu Breiðablik. Þjálfarinn er ánægður að þeir hafi valið Blika.

„Ég er fáránlega ánægður með það. Það hefur orðið breyting á síðustu árum, Breiðablik er komið töluvert ofar í fæðukeðjuna en það var fyrir einhverjum árum. Eftirsóttustu bitarnir eru að velja að koma í Breiðablik. Það skemmir ekki fyrir að við höfum orðið Íslandsmeistarar tvisvar sinnum á þremur árum og förum inn í Evrópu á næsta ári sem meistarar. Í ljósi tveggja ára þekkja menn auðvitað möguleikann sem felst í því. Við erum í góðri stöðu til að heilla leikmenn á þessu kalíberi."

„Það er að verða ákveðin endurnýjun á liðinu, það fóru sex leikmenn núna. Það er mjög skýrt hvað við viljum fá frá hverjum og einum af þeim sem við höfum fengið. Það er yfirlýsing frá félaginu varðandi hvert við stefnum með því að sækja þessa leikmenn."


Anda rólega í bili en augun áfram opin
Er eitthvað skarð sem á eftir að fylla í leikmannahópnum?

„Það er í raun ekkert í dag sem við horfum í að verði að fylla. Hins vegar er það þannig og mikilvægur lærdómur frá fyrri árum að taka inn leikmenn strax, bæði til að fylla í skörð og það er líka yfirlýsing um að við ætlum okkur hluti. En það er líka mikilvægt að byrja að æfa og spila og sjá hvernig þetta lítur út, hafa þá einhverja möguleika opna þegar líður á til að bæta við okkur leikmönnum. Auðvitað eru leikmenn sem við höfum augastað á og erum að fylgjast með. Við öndum með nefinu, öndum rólega næstu daga og vikur. Við erum ekki hættir, en ekkert algjörlega augljóst hvar við ætlum að fá inn leikmenn eða hverja við ætlum að taka."

Kannski engin augljós söluvara akkúrat núna
Áttu von á því að einhver úr leikmannahópi Breiðabliks haldi í atvinnumennsku í vetur?

„Auðvitað veit maður aldrei, ég bjóst ekki við því (fyrir síðasta tímabil) að Gísli Eyjólfsson myndi fara í atvinnumennsku. Arnór Gauti (Jónsson) er væntanlega farinn að vekja einhverja athygli, en ekkert komið inn á borð til okkar. Maður veit aldrei. Þó að við séum kannski ekki með augljósa söluvöru akkúrat núna, þá er magnið af leikmönnum sem við erum búnir að selja síðustu ár ótrúlegt."

„Það hefði verið hægt að stilla upp U21 landsliði í sumar af uppöldum Blikum, sem eru annars staðar en hjá okkur, sem hefðu getað unnið þetta mót. Það er unnið frábært starf í Smáranum, leikmenn framleiddir sem eru að spila úti um allt. Auðvitað viljum við gjarnan að þeir spili fyrir okkur, þó að þeir séu einhverjir komnir á aldur, þá eru langflestir í liðinu uppaldir hjá okkur sem gerir Blikaliðið mjög einstakt."

„Maður veit aldrei, í gegnum árin hafa mikið af sölunum verið tiltölulega óvæntar. Það er aldrei að segja aldrei með að einhver fari út, en það er ekkert að gerast akkúrat núna."


Flest lið myndu vilja hafa Benedikt í sínu liði
Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs Vestra, staðfesti við 433 í síðustu viku að Alfreð Finnbogason, tæknilegur ráðgjafi Breiðabliks, hefði rætt við sig um Benedikt Warén. Benedikt kom í Vestra fyrir tímabilið 2023.

„Hann er virkilega góður leikmaður sem við þekkjum mjög vel. Hann var hérna fyrstu fjögur undirbúningstímabilin og stóð sig gríðarlega vel. Hann var oft nálægt þessu hjá okkur og hefur núna sprungið algjörlega út hjá Vestra og ótrúlega gaman að fylgjast með honum í sumar. Það var gaman að fylgjast með honum, hefur þroskast mikið sem leikmaður og er leikmaður sem ég held að flest lið myndu vilja hafa í sínu liði. Akkúrat núna eru engar þreifingar með það," segir Dóri.
Athugasemdir
banner
banner