Valur og KA reyndu fyrr í vetur að kaupa Oliver Heiðarsson frá ÍBV en ÍBV hafnaði tilboðum félaganna. Oliver var besti leikmaður Lengjudeildarinnar á síðasta tímabili en hann á innan við ár eftir af samningi sínum við ÍBV.
Fótbolti.net ræddi við Þorlák Árnason, þjálfara ÍBV, um sóknarmanninn Oliver.
Fótbolti.net ræddi við Þorlák Árnason, þjálfara ÍBV, um sóknarmanninn Oliver.
„Það er bara hluti af fótboltanum að önnur félög hafi áhuga á leikmönnunum þínum. Einn leikmaður okkar fór í KR, einn í Val og einn í KA. Það er auðvitað vont að ÍBV fékk ekki eina einustu krónu fyrir þessa leikmenn, en að sama skapi höfum við sótt leikmenn í Lengjudeildina sem við þurftum ekki að kaupa," segir Láki.
Hann segir vont að lið sem fari upp missi marga byrjunarliðsmenn en það hafi ekki komið á óvart, hafi verið í kortunum áður en það gerðist. En aftur að Oliver.
„Ég reikna með því að Oliver spili erlendis eftir þetta tímabil, reikna með því að hann standi sig það vel í sumar að hann muni vekja athygli á sér erlendis frá. Hann stóð sig vel í fyrra og hefur haldið áfram að bæta sig. ÍBV er þróunarfélag, gefur leikmönnum tækifæri til þess að spila. Hugmyndafræðin er bara þannig að ef þeir standa sig mjög vel hér þá þróast þeir í að fara í stærra félag. Við erum alveg meðvitaðir um það."
Hvernig heldur þú að það sé fyrir leikmann eins og Oliver að tilboðum frá félögum sem ætla sér kannski stærri hluti en ÍBV sé hafnað? Er hann með fullan fókus á ykkar verkefni?
„Já, 100%. Hann er mjög faglegur í sinni nálgun. Oliver er með metnað og langar pottþétt að spila á hærra getustigi. Ég held að hans æðsti draumur sé að spila erlendis þannig að markmiðin hans eru mjög skýr. Fótbolti er bara viðskipti og virkar í báðar áttir. Oliver var á sínum tíma keyptur frá FH. ÍBV er bara eins og öll önnur félög með það að ef það kemur tilboð sem félagið getur ekki hafnað í leikmann þá er það samþykkt, en ef tilboðið vekur ekki áhuga félagsins þá er ekkert að fara gerast."
„Að sama skapi hefur leikmaðurinn val eins og núna í haust, áður en ég tók við, þá var Oliver boðinn samningur en hann vildi ekki skrifa undir nýjan samning. Það er bara hans réttur og val. Þetta eru bara viðskipti. Ég er mjög ánægður að vera með Oliver hjá okkur og ætla reyna hjálpa honum að undirbúa sig fyrir vonandi sterkari deild en Bestu deildina," segir Láki.
Athugasemdir