Hinn 18 ára gamli Daði Berg Jónsson hefur skorað tvö mörk og lagt upp eitt í fyrstu þremur umferðum Bestu deildarinnar. Hann leikur fyrir Vestra á lánssamningi frá Víkingi.
„Lífið leikur við mann fyrir vestan og það er bara að njóta," segir Daði í útvarpsþættinum Fótbolti.net en það er ekki oft sem efnilegir leikmenn úr Reykjavík eru tilbúnir að fara út á land til að þróa sinn feril.
„Lífið leikur við mann fyrir vestan og það er bara að njóta," segir Daði í útvarpsþættinum Fótbolti.net en það er ekki oft sem efnilegir leikmenn úr Reykjavík eru tilbúnir að fara út á land til að þróa sinn feril.
Daði býr í Súðavík og það tekur hann um fimmtán mínútur að keyra yfir á Ísafjörð.
„Þetta er svolítið 'Palli var einn í heiminum'-stemning. Það er ekki komið sumar svo það er eiginlega enginn hérna. Ég er bara einn hérna," segir Daði léttur en hann notar tímann þegar hann er ekki í boltanum til að stunda nám.
„Ég er að reyna mitt besta að klára eðlisfræðina í Verzlunarskólanum. Maður reynir að læra þegar tími gefst. Annars fer maður bara í 'gymmið' með strákunum þegar maður vaknar á morgnana, hádegismatur og svo æfing. Maður kemst ekki nær því að vera eins og atvinnumaður á Íslandi. Þetta er bara geðveikt."
„Ég dýrka að vera hérna með þessum gaurum. Þetta er alvöru liðsheild og það er rétt sem fólk segir, þetta er ein stór fjölskyldustemning."
Þegar Daði var kynntur hjá Vestra var hann titlaður Súðvíkingur.
„Það kom mér svolítið í opna skjöldu. Ég er ættaður héðan, afi bjó hérna þegar hann var yngri. Mamma og pabbi eru bæði samt úr Breiðholtinu og ég úr Reykjavík en maður kom oft hingað á sumrin þegar maður var yngri."
Hann er ógeðslega seigur
Varnartengiliðurinn Fatai Gbadamosi kom til tals en Tómas Þór Þórðarson talaði um hann sem mögulega vanmetnasta leikmann deildarinnar og Daði tók undir það.
„Já klárt mál. Hann er ógeðslega seigur. Hann veit sitt hlutverk og er ekkert að fara úr stöðu. Varnarlega er hann svakalegur. Hann hendir sér í allar tæklingar," segir Daði.
Viðtalið var í lok útvarpsþáttarins en þar ræddi Daði nánar um einkenni Vestraliðsins, fögn og hvort Víkingur geti kallað sig til baka.
Vestri er á toppi Bestu deildarinnar að loknum þremur umferðum en liðið tekur á móti Íslandsmeisturum Breiðabliks í dag klukkan 14.
Athugasemdir