Juventus segir nei við Rashford - Stærstu félögin á Englandi vilja Musiala - Olmo gæti farið frítt frá Barcelona
   fös 27. júlí 2018 13:10
Arnar Daði Arnarsson
Jónas Guðni: Hagræðing fyrir félagið að lána Jeppe
Jeppe Hansen hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Keflavík.
Jeppe Hansen hefur spilað sinn síðasta leik fyrir Keflavík.
Mynd: Raggi Óla
Jónas Guðni framkvæmdastjóri Keflavíkur.
Jónas Guðni framkvæmdastjóri Keflavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Það kom mörgum á óvart þegar tilkynnt var að Jeppe Hansen framherji Keflavíkur í Pepsi-deild karla hafi verið lánaður til ÍA í Inkasso-deildinni.

Jeppe Hansen sem átti frábært tímabil með Keflvíkingum í fyrra og skoraði 15 mörk í 21 leik í Inkasso-deildinni hefur ekki náð sér á strik í Pepsi-deildinni í sumar, líkt og allt Keflavíkurliðið sem situr á botni deildarinnar með aðeins þrjú stig eftir þrettán umferðir.

„Í samráði við Jeppe fannst okkur að best væri fyrir bæði leikmanninn sjálfan og félagið að við myndum lána hann," sagði Jónas Guðni Sævarsson, framkvæmdastjóri Keflavíkur aðspurður að því hver ástæðan hafi verið að Keflvíkingar hafi leyft Jeppe að fara.

„Hann var ekki að nýtast okkur jafn vel og hann var að gera fyrir okkur í fyrra og við vorum ekki að nýta krafta hans á vellinum. Út frá stöðunni sem við vorum komnir í og hvernig hann var að spila þá var þetta ákveðin hagræðing fyrir félagið að lána hann."

Best fyrir alla að leyfa honum að fara
Jeppe Hansen náði ekki að skora eitt fótboltamark fyrir Keflvíkinga í Pepsi-deildinni í sumar en hann gæti spilað með ÍA í kvöld gegn Þór í Inkasso-deildinni. Jeppe verður samningslaus Keflvíkingum eftir tímabilið. Hann hefur því leikið sinn síðasta leik fyrir félagið.

„Þetta var samkomulag sem var gott fyrir báða aðila. Þetta kom upp eftir umræður beggja vegna. Þetta var ekkert hans frumkvæði frekar en okkar. Þetta var allt rætt á faglegum nótum."

„Skaginn sýndi honum áhuga vitandi af okkar stöðu og út frá því skapaðist umræða og sú umræða fer í það að þetta kemur best út fyrir bæði aðila að leyfa honum að fara spila og fá gleðina á ný."

Jónas Guðni segir að Keflvíkingar séu farnir að undirbúa sig fyrir næstu ár.

„Við erum farnir í uppbyggingastefnu og erum að horfa til yngri leikmanna sem við getum farið að gefa séns á næstu árum. Við erum líka farnir að leita til leikmanna sem eru ferskir og vilja koma og sýna sig. Við erum á fullu í það að leita í kringum okkur," sagði Jónas Guðni.

Keflvíkingar eru tíu stigum frá öruggu sæti í deild þeirra bestu þegar níu umferðir eru eftir. Liðið hefur aðeins skorað sex mörk í þrettán leikjum og hefur liðið ekki skorað í síðustu sex deildarleikjum. Síðasta mark liðsins skoraði Marc McAusland í 2-2 jafntefli gegn FH í Kaplakrika, 4. júní.

Keflavík mætir Breiðabliki á heimavelli næstkomandi mánudagskvöld.
Athugasemdir
banner
banner