Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   sun 27. október 2019 08:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Elías Rafn fær mikið lof fyrir frammistöðu sína
Dreymir um topp fimm deildir Evrópu og landsliðið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Elías í leik með FC Midtjylland.
Elías í leik með FC Midtjylland.
Mynd: UEFA.com
Mynd: Blikar.is
Hinn nítján ári gamli Elías Rafn Ólafsson hefur komið á óvart með frammistöðu sinni með danska 2. deildarliðinu Aarhus Fremad. Það finnst í það minnsta þjálfara hans, Morten Molkjær en það kemur fram í grein hjá Jótlandspóstinum (Jyllandsposten) á föstudag.

„Hann er rúmir tveir metrar á hæð og getur einnig hoppað hátt. Hann er með útgeislun sem sést ekki oft í 2. deild eða jafnvel 1. deild, drengurinn er nítján ára. Hann þarf að bæta á sig vöðvamassa og á milli tímabila hefur hann gott tækifæri til að lyfta vel," sagði Morten um Elías Rafn.

Sjá einnig: Spáir því að Elías verði landsliðsmarkvörður eftir 5-7 ár

Elías Rafn gekk í raðir FC Midtjylland í fyrra frá Breiðabliki. Hann lék með unglingaliði Midtjylland í Evrópukeppni unglingaliða þar sem FCM datt úr leik í 8-liða úrslitum. Þá varð Elías danskur meistari með unglingaliðinu.

Í sumar var hann svo lánaður í Aarhus Fremad sem leikur í þriðju efstu deild í Danmörku. Elías hefur verið viðloðinn U21 landslið Íslands.

Þurfti á fullorðins fótbolta að halda
Elías er á láni út þessa leiktíð hjá Aarhus Fremad en hann æfir einnig með aðalliði Midtjylland.

„Hann er of góður fyrir U19 ára liðið og það er ekki lengur nægileg áskorun. Hann þurfti á fullorðins bolta að halda," sagði Lasse Heinze sem starfar sem markmannsþjálfari hjá Midtjylland akademíunni.

„Elías æfir þrisvar í viku með Midtjylland og þrisvar með okkar liði auk tveggja styrktaræfinga, við erum ekki atvinnumannalið svo hann þarf á aukaæfingum að halda," segir Morten.

Fremad einungis fengið á sig sex mörk á leiktíðinni
Elías fær mikið lof fyrir frammistöðu sína gegn Vejgaard um síðustu helgi og í gær hélt hann hreinu í sigri á Sydvest.

„Í leiknum gegn Vejgaard gerir hann í þrígang frábærlega og bjargar liðinu, þær vörslur voru eitthvað annað!" Sagði Morten í viðtali í síðustu viku.

„Hann gefur liðinu mikið sjálfstraust og liðið hefur einungis fengið á sig sex mörk, þar af þrjú í sama leiknum. Það segir svolítið um stöðugleikann sem hann hefur hjálpað til við að veita liðinu."

Dreymir um að spila í einni af topp fimm deildum Evrópu
Aarhus Fremad er á toppi riðils 2 í 2. deildinni. Liðið er með 32 stig eftir fjórtán umferðir. Elías segir, í viðtali við Jótlandspóstinn, að sér líði vel hjá félaginu. Elías sér þetta sem gott skref á sínum ferli en ætli sér lengra í framtíðinni.

„Þetta er virkilega gott umhverfi og dvölin mín hér hefur verið virkilega fín."

„Mig dreymir um að spila einn daginn í einni af topp fimm deildum Evrópu. Núna hins vegar er markmiðið að vera eins góður hér og mögulegt er og vonandi fæ ég svo tækifæri með aðalliði Midtjylland. Í framtíðinni væri svo auðvitað frábært að fá sénsinn með landsliðinu."


Að lokum kemur Morten, þjálfari Elíasar hjá Fremad, inn á að Elías sé virkilega góður markmaður sem hafi allt til brunns að bera. Hann sé yfirvegaður og sé góður í því, sem mikilvægast er, að koma í veg fyrir að boltinn fari í netið á bakvið sig.
Athugasemdir
banner