Ástbjörn Þórðarson var tilkynntur sem nýr leikmaður FH í dag. FH hélt blaðamannafund þar sem tilkynnt var um komu Ástbjörns og þá voru tveir FH-ingar mættir til að framlengja samninga sína. Það voru þeir Logi Hrafn Róbertsson og Oliver Heiðarsson.
Fótbolti.net ræddi við Ólaf Jóhannesson, þjálfara FH, eftir fundinn.
„Mér líst ljómandi vel á að fá Ástbjörn í FH. Við seldum Hörð [Inga Gunnarsson] til Noregs og þá lá það ljóst fyrir að við þyrftum að fá nýjan hægri bakvörð. Við fórum yfir flóruna af þeim leikmönnum sem eru hérna og höfðum samband við Keflavík. Það gekk svona upp og niður eins og gengur og gerist í þessu, menn eru ekki alltaf sáttir. En við náðum samkomulagi við þá og hann og ég er bara mjög ánægður með það," sagði Óli.
Voru þeir að ýta verðmiðanum upp?
„Þú getur ekki spurt mig um peninga vegna þess að það kemur mér ekki neitt við og ég pæli aldrei í því en það er þannig þegar önnur lið sækjast eftir leikmönnum að þá fer ákveðið stríð í gang. Svo leystist það bara sem betur fer."
Með komu Ástbjörns, getiði sett niður eitthvað markmið fyrir sumarið?
„Nei, við erum svo sem ekkert farnir að setja nein markmið ennþá. Við erum bara að æfa og það er bara vetur ennþá og svona. Við sjáum hvernig liðið verður eftir einhvern X tíma," sagði Óli.
Hann var í viðtalinu einnig spurður út í markvarðarmálin, mögulega styrkingu með miðverði og út í þá Loga og Oliver. Viðtalið í heild má sjá í spilaranum að ofan.
Athugasemdir