„Mér líst bara ágætlega á það, höfum verið um miðja deild síðustu ár svo þetta er ekkert óeðlileg spá. Við ætlum að sjálfsögðu að reyna að koma okkur í efri hlutann," segir Hallgrímur Jónasson, þjálfari KA, er hann er spurður út í spá Fótbolta.net fyrir tímabilið sem er framundan.
KA-mönnum er spáð áttunda sæti deildarinnar í spá álitsgjafa Fótbolta.net fyrir mótið.
KA-mönnum er spáð áttunda sæti deildarinnar í spá álitsgjafa Fótbolta.net fyrir mótið.
„Það hefur gengið ágætlega hjá okkur í vetur. Það hefur reynt mikið á hópinn og margir ungir fengið tækifæri eins og gengur og gerist á veturna. Við höfum lent í meiri meiðslum en síðustu ár en sem betur fer ekki langtímameiðsli. Ég hef verið mjög ánægður með hugarfar strákana og við höfum æft vel í vetur," segir Hallgrímur og bætir við að stemningin í hópnum sé góð.
„Stemningin í hópnum er góð. Það er spennandi sumar framundan og okkur hlakkar öllum til að taka þátt í þremur keppnum. Æðislegt að fara í Evrópu aftur og menn glaðir að fara inn í mót sem bikarmeistarar. Við erum með reynslumikið lið í bland við unga efnilega stráka og margir sem hafa verið hérna í KA í mörg ár, svo það er alvöru fjölskyldustemning í hópnum."
KA endaði í sjöunda sæti Bestu deildarinnar en tímabilið var frábært þar sem liðið lyfti bikarnum á Laugardalsvelli eftir magnaðan sigur gegn Víkingi í úrslitaleik.
„Síðasta tímabil var frábært í svo marga staði," segir Hallgrímur.
„Við byrjum tímabilið erfiðlega úrslitlega séð. Skipti litlu máli hvort við spiluðum vel, ágætlega eða illa þá fengum við ekki þau úrslit sem við vonuðumst til. Vorum í fallsæti þegar um tíu leikir voru búnir. Við vissum að það bjó meira í liðinu og það sýndi sig svo þegar við fórum á skrið og vorum ósigraðir í tólf leikjum í röð. Við vinnum síðan Mjólkurbikarinn og stóðum okkur vel í úrslitakeppninni, enduðum í 7. sæti."
„Þetta var virkilega lærdómsríkt tímabil fyrir alla sem koma að KA. Fórum í gegnum súrt og sætt og endum svo uppi sem bikarmeistarar í fyrsta sinn í sögu félagsins. Strákarnir sýndu mikinn karakter og stóðu saman þegar það bjátaði á og við komum út úr þessum saman sem miklir sigurvegarar og andlega sterkari."
Það hafa orðið nokkrar breytingar á leikmannahópnum. Ertu ánægður með hópinn þinn?
„Já, ég er ánægður með hópinn minn. Flott blanda af reynslumiklum strákum og svo ungum efnilegum strákum að norðan sem margir hafa fengið smjörþefinn af Bestu deildinni. Við eigum samt eftir að styrkja okkur áður en glugginn lokar."
„Markmiðið í sumar er að standa okkur vel á öllum vígstöðum. Við gerðum það fyrir tveimur árum þegar við vorum í tveimur keppnum og okkur langar að gera það aftur. Bikarinn hefur verið okkar keppni síðustu ár og við farið tvö ár í röð í úrslit þar og það langar öllum að gera það aftur. Evrópukeppni er eitthvað sem öllum langar að prófa og standa sig vel í og þar er markmiðið alltaf að reyna að fara áfram í hverri umferð og sjá hversu langt við getum farið. Við viljum koma okkur aftur upp í topp sex í deildinni og skoða svo stöðuna þegar deildin skiptist upp."
Einhver lokaskilaboð til stuðningsmanna?
„Hlakka til að sjá ykkur stuðningsmenn á vellinum í sumar og við gerum sumarið 2025 minnisstætt saman. Þið stóðuð við bakið á okkur í fyrra þegar illa gekk og við enduðum svo á því að eiga æðislega stund á Laugardalsvelli í september. Áfram KA!" sagði Hallgrímur að lokum.
Athugasemdir