fös 28.mar 2025 15:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|

Spá Fótbolta.net fyrir Bestu deildina: 8. sæti
Sérfræðingar Fótbolta.net spá því að KA muni enda í áttunda sæti Bestu deildarinnar í sumar. Álitsgjafar spá í deildina en þeir raða liðunum upp í röð og það lið sem er í efsta sæti fær 12 stig, annað sæti 11 og svo koll af kolli niður í tólfta sæti sem gefur eitt stig. KA fer niður um eitt sæti frá því í fyrra ef spáin rætist.
Það verður gaman að fylgjast með Viðari Erni á sínu öðru tímabili á Akureyri.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bjarni Aðalsteinsson kemur til með að fá stærra hlutverk í sumar.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. KA, 60 stig
9. Fram, 58 stig
10. Afturelding, 37 stig
11. Vestri, 27 stig
12. ÍBV, 14 stig
Um liðið: KA gerði sér lítið fyrir og fór með sigur af hólmi í Mjólkurbikarnum í fyrra. Þetta var fyrsti stóri titill KA í fjöldamörg ár og gleðin var ósvikin hjá stuðningsmönnum félagsins, sem og auðvitað leikmönnum og þjálfurum. Tímabilið hafði byrjað mjög erfiðlega hjá KA-mönnum og þeir voru í nokkrar vikur við botn Bestu deildarinnar. Þeir náðu þó að rífa sig upp, héldu sér þægilega uppi og komu sér í Evrópukeppni með því að vinna Mjólkurbikarinn. KA hefur síðustu tvö tímabil verið efsta liðið í neðri hlutanum en markmiðið núna hlýtur að vera það að komast aftur í hóp bestu sex liða deildarinnar.
Þjálfarinn: Hallgrímur Jónasson er að fara inn í sitt þriðja tímabil sem aðalþjálfari KA. Þar áður var hann aðstoðarþjálfari liðsins. Hallgrímur er ungur að árum í þjálfun en hefur sýnt að það er margt spunnið í hann. Bikarúrslitaleikurinn í fyrra er að öllum líkindum besta dæmið um það. Var það frábærlega settur leikur upp hjá honum og má klárlega segja að hann hafi skákað Arnari Gunnlaugssyni, núverandi landsliðsþjálfara, í þeim leik. Í fyrra var Hallgrímur undir mikilli pressu í byrjun tímabilsins og var talað um að hann væri í hættu á að missa starfið, en hann stóðst þá pressu og náði að yfirstíga hana.
Styrkleikar: KA er með nokkra af bestu sóknarmönnum deildarinnar í sínum röðum og ef þeir finna taktinn, þá er erfitt að stoppa þá. Hallgrímur Mar Steingrímsson og Viðar Örn Kjartansson ættu að geta skilað fullt af mörkum fyrir Akureyrarliðið. Þeir tveir þurfa að haldast heilir. Þá var miðvarðaparið í fyrra, Ívar Örn og Hans Viktor, eitt það sterkasta í deildinni. Þetta er eitthvað sem liðið getur byggt á þegar horft er á báða enda vallarins. Það er mikil reynsla í þessu liði og margir leikmenn KA spilað lengi saman og þekkja þeir vel inn á hvorn annan. Þegar gengur vel, þá myndast auðveldlega mikil stemning í liðinu eins og til að mynda hefur sést í kringum bikarkeppnina síðustu ár.
Veikleikar: Það hefur verið heldur rólegt í kringum KA á leikmannamarkaðnum. Þeir misstu Daníel Hafsteinsson, sem var mögulega þeirra besti maður á síðasta tímabili, og hafa ekki fengið mann í hans stað. Svona fyrirfram viðast KA-menn ekki vera að mæta til leiks með sterkara lið en á síðasta tímabili og það er áhyggjuefni þar sem þeir eru að fara í Evrópukeppni. Það gæti myndast álag út frá því og þá hefur maður áhyggjur af leikmannahópnum. Stubbur var frábær í bikarúrslitaleiknum í fyrra, og það gleymist ekki, en markvarðarstaðan hefur verið vandamál fyrir KA í nokkur ár núna. Þeir fengu inn erlendan markvörð í vetur sem meiddist strax en fyrir stuttu fengu þeir annan erlendan markvörð, William Tönning, og verður fróðlegt að sjá hvernig hann verður. KA byrjaði síðasta tímabil afar hægt og það má ekki gerast aftur núna. Það hefur ekki gengið sérstaklega vel hjá liðinu í vetur og það gefur ekki góð fyrirheit.
Lykilmenn: Ívar Örn Árnason og Hallgrímur Mar Steingrímsson
Ívar Örn er nýr fyrirliði KA. Ívar er fæddur árið 1996 og er á leið inn í sitt ellefta tímabil í meistaraflokki. Hann hefur leikið með KA allan sinn feril ef frá er talið sumarið 2018 þegar hann var hjá Magna og fyrri hluti tímabilsins 2019 þegar hann var hjá Víkingi Ólafsvík. Hann er algjör lykilmaður í liði KA og var í vetur á óskalista Breiðabliks en Íslandsmeisturunum tókst ekki að fá hann frá uppeldisfélaginu. Hallgrímur Mar hefur þá lengi verið einn besti leikmaður Bestu deildarinnar. Það sást hversu mikil áhrif það hafði á KA þegar hann var veikur í byrjun síðasta tímabils. Hann skilar alltaf mörkum og stoðsendingum.
Gaman að fylgjast með: Viðar Örn Kjartansson
Það er kannski skrítið að setja mann með eins öfluga ferilsrká og Viðar hérna, en það verður rosalega gaman að fylgjast með því hversu vel hann nær að fylgja eftir endinum frá síðasta tímabili. Hann kom heim fyrir síðasta tímabil og var lengi í gang. Þegar hausinn var kominn á réttan stað, þá varð hann illviðráðanlegur inn á vellinum. Ef Viðar er í góðum gír, þá ætti hann að geta verið nálægt 20 mörkum í sumar.
Spurningamerkin: Hvernig ná þeir að fylla skarð Danna Hafsteins? Truflar Evrópukeppnin of mikið? Hversu mikið skorar Viðar Örn?
Völlurinn: KA flutti sig yfir á sitt svæði á Greifavöllinn fyrir nokkrum árum, en sá völlur er bara til bráðabirgða. Verið er að vinna að nýjum velli sem á að vera með yfirbyggða stúku fyrir 1000 manns. Ekki er alveg víst hvenær það verður klárt og er útlit fyrir að KA verði að spila Evrópuleiki sína á höfuðborgarsvæðinu, alveg eins og síðast. Það fór þó ekkert illa.
Komnir:
Jóan Símun Edmundsson frá N-Makedóníu
Jonathan Rasheed frá Svíþjóð (frá út tímabilið)
William Tönning frá Svíþjóð
Guðjón Ernir Hrafnkelsson frá ÍBV
Ingimar Torbjörnsson Stöle frá FH (var á láni)
Bjarki Fannar Helgason keyptur frá Hetti/Hugin (lánaður til baka)
Farnir:
Daníel Hafsteinsson í Víking
Sveinn Margeir Hauksson í Víking
Elfar Árni Aðalsteinsson í Völsung
Harley Willard á Selfoss
Kristijan Jajalo til Austurríkis
Darko Bulatovic til Svartfjallalands

Leikmannalisti:
1. Ívar Arnbro Þórhallsson (m)
12. William Tönning (m)
13. Steinþór M. Auðunsson (m)
2. Birgir Baldvinsson
3. Kári Gautason
4. Rodrigo Mateo
5. Ívar Örn Árnason
7. Jóan Símun Edmundsson
9. Viðar Örn Kjartansson
10. Hallgrímur Mar Steingrímsson
11. Ásgeir Sigurgeirsson
14. Andri Fannar Stefánsson
15. Bjarki Fannar Helgason
18. Hákon Aðalsteinsson
21. Mikael Breki Þórðarson
22. Hrannar Björn Steingrímsson
23. Markús Máni Pétursson
25. Dagur Ingi Valsson
26. Ingimar Torbjörnsson Stöle
27. Árni Veigar Árnason
28. Hans Viktor Guðmundsson
29. Jakob Snær Árnason
30. Guðjón Ernir Hrafnkelsson
44. Valdimar Logi Sævarsson
77. Bjarni Aðalsteinsson
80. Gabriel Lukas Freitas Meira
88. Dagbjartur Búi Davíðsson
90. Snorri Kristinsson
99. Jóhann Mikael Ingólfsson
Fyrstu fimm leikir KA:
6. apríl, KA - KR (Greifavöllurinn)
13. apríl, Víkingur R. - KA (Víkingsvöllur)
23. apríl, Valur - KA (N1-völlurinn Hlíðarenda)
27. apríl, KA - FH (Greifavöllurinn)
4. maí, ÍA - KA (ELKEM völlurinn)
Spámennirnir: Anton Freyr Jónsson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Haraldur Örn Haraldsson, Jóhann Þór Hólmgrímsson, Kári Snorrason, Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke, Sölvi Haraldsson, Tómas Þór Þórðarson og Valur Gunnarsson.
Athugasemdir