Sölvi Geir Ottesen þjálfari Víkinga var að vonum sáttur með frammistöðu síns liðs er það lagði lið KR að velli í úrslitum Bosemótsins í Víkinni í kvöld. Lokatölur leiksins urðu 5-1 Víkingum í vil og var Sölvi léttur í skrefi er hann mætti í viðtal við Fótbolta.net í leikslok.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 5 - 1 KR
„Liðið var mjög flott í dag. Þetta var erfiður leikur og KRingar, það er erfitt að verjast þessum fótbolta sem þeir spila. Þeir taka miklar áhættur með því að koma með markvörðinn svona út svo þetta var mjög krefjandi leikur. Að sama skapi vissum við að þeir myndu skilja eftir opnanir ef þeir myndu missa boltann miðsvæðis og við nýttum það mjög vel í dag.“
„Þetta var skemmtilegur leikur. Það var mikil ákefð og hart barist og bara akkúrat leikurinn sem þú vilt fá rétt fyrir mót.“
Undirbúningstímabil Víkinga hefur verið nokkuð frábrugðið því sem önnur lið í deildinni hafa staðið í. Liðið lék í umspili um sæti í 16 liða úrslitum Sambandsdeildarinnar fyrir rétt um mánuði síðan þegar önnur lið voru á fullu í Lengjubikarnum. Telur Sölvi að þessir risaleikir gegn Panathinaikos séu jafnvel að koma liðinu til góða?
„Já ég myndi alveg segja það. Þetta er nýtt fyrir okkur að fá stóran leik inn í mitt undirbúningstímabil en það klárlega hjálpaði okkur. Við þurftum bara strax að gefa í og koma okkur í almennilegt stand fyrir þessa leiki. Við höfum svo viðhaldið því núna. En við höfum svo sem tæklað undirbúningstímabilin þannig síðustu ár að vera bara fljótlega klárir í bátana.“
lsírski sóknartengiliðurinn Samy Mahour var á reynslu hjá Víkingum á dögnum og í kvöld kom var kom norðmaðurinn Rafik Zekhnini við sögu. Sá er með áhugaverðan feril og hefur meðal annars verið á mála hjá Fiorentina ogTwente en var síðast á mála hjá Sarpsborg í heimalandinu. Um þá og leikmannamál Víkinga sagði Sölvi.
„Við erum bara með opin augun fyrir liðsstyrk. Ég er svo sem virkilega sáttur með hópinn og það er ekki nauðsynlegt að fá styrkingu. En þetta eru spennandi leikmenn og spennandi prófílar sem okkur bauðst að fá á reynslu. Því miður eyðilagði Sveinn Gísli það fyrir honum (Rafik) í dag þar sem við þurftum að spila einum færri fljótlega eftir að hann kom inn á.“
Sagði Sölvi kíminn á svip en allt viðtalið við hann má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir