Nkunku til Barcelona? - Man Utd hefur áhuga á Osimhen - Díaz ánægður á Anfield
   fös 28. ágúst 2020 14:03
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Alfreð gaf ekki kost á sér: Ákvörðun sem nýtist vonandi mér og landsliðinu til lengri tíma
Icelandair
Alfreð Finnbogason hefur leikið 57 landsleiki fyrir Ísland.
Alfreð Finnbogason hefur leikið 57 landsleiki fyrir Ísland.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Meiðsli hafa sett strik í reikninginn síðustu ár.
Meiðsli hafa sett strik í reikninginn síðustu ár.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Erik Hamren spjallar við Alfreð.
Erik Hamren spjallar við Alfreð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Marki fagnað með Augsburg.
Marki fagnað með Augsburg.
Mynd: Getty Images
Sóknarmaðurinn Alfreð Finnbogason er meðal lykilmanna Íslands sem eru ekki með í komandi landsleikjum gegn Englandi og Belgíu í Þjóðadeildinni.

Alfreð, sem spilar fyrir Augsburg í þýsku Bundesligunni, gaf ekki kost á sér í þennan landsleikjaglugga en hann útskýrði ákvörðun sína í samtali við Fótbolta.net.

„Síðan 2016 get ég talið á fingrum annarrar handar hversu oft ég hef komið í landsliðið og liðið vel og verið í toppformi. Síðustu árin hefur þetta því miður verið mikið þannig að ég hef verið að koma úr meiðslum eða spila meiddur. Akkúrat núna er ég á þeim stað að mér finnst ég þurfa að ná stöðugleika og ákveðnu ´rönni’ af leikjum," segir Alfreð.

„Fyrir það fyrsta finnst mér þessi tímasetning á landsleikjaglugga glórulaus. Menn eru að fara í landsleiki áður en stóru deildirnar hefjast. Menn eru í raun að fara af undirbúningstímabili, búnir með 2-3 vikur eða jafnvel minna, og vera ekki búnir að spila keppnisleiki fyrir sín lið. Þetta er samt eitthvað sem við stjórnum ekki og þetta verður gríðarlega þétt fram að jólum."

„Ég tek þessa ákvörðun út frá því að ég vil koma sjálfum mér á ról. Ég hef ekki spilað 90 mínútna keppnisleik á þessu ári og vil fara í grunninn og spila í hverri viku. Ég er að reyna að hugsa þetta til lengri tíma, ég vonast til að nýtast landsliðinu meira næstu árin ef ég er í toppformi og spila í hverri viku með mínu liði. Það hefur ekki verið gaman til lengri tíma að vera half laskaður og geta ekki sýnt sitt rétta andlit. Ég tek þessa ákvörðun fyrir mig en vonandi getur landsliðið hagnast á því til lengri tíma að ég sé í betra formi, það hefur forgang hjá mér akkúrat núna."

Þjálfararnir auðvitað svekktir
Alfreð segir að landsliðsþjálfararnir Erik Hamren og Freyr Alexandersson séu ekki hoppandi kátir með þessa ákvörðun en vonar að þeir sýni skilning.

„Þeir voru auðvitað svekktir. Þeir vildu hafa mig með og sjá þetta sem undirbúning fyrir verkefnin í október og ég skil það mjög vel. Við höfum mjög stuttan tíma í október til undirbúnings. En ég vona að það sé gagnkvæmur skilningur fyrir minni stöðu í þessu tilfelli," segir Alfreð en í október spilar Ísland gegn Rúmeníu í umspili um að komast á EM alls staðar.

„Á sama tíma finnst mér það gríðarlega ósanngjarnt gagnvart mínu liði að fara svona stuttu fyrir mót. Ég myndi ná fyrstu æfingu þegar ég kæmi til baka á fimmtudegi og svo er fyrsti keppnisleikur á laugardegi. Maður hefur meiðst nokkuð oft uppá síðkastið með landsliðinu og maður fann það aðeins frá félaginu að þolinmæðin væri á þrotum. Mér finnst ég hafa ákveðna skuldbindingu gagnvart félaginu mínu, sem ég framlengdi samning minn við fyrir ári síðan. Ég þarf að borga til baka og standa mig þar."

Langt tímabil sem endar vonandi á EM
Alfreð er 31 árs en á síðasta tímabili missti hann talsvert mikið úr vegna meiðsla. Þýska deildin fer af stað í komandi mánuði en vegna heimsfaraldursins er leikjaplanið mjög þétt og gríðarlegur fjöldi leikja framundan.

„Ég vil ekki upplifa annað tímabil eins og í fyrra, þar sem ég kemst í raun aldrei úr byrjunarsporunum. Það er mjög erfitt að vera alltaf að koma til baka, fara í endurhæfingu og rífa sig í gang," segir Alfreð.

„Miðað við hvernig leikjaálagið verður fram að jólum þá fannst mér ég þurfa að skera einhverstaðar á. Ég vona að þessi ákvörðun geri mér gott. Miðað við markmiðin sem ég hef sett mér á þessu timabili verð ég að taka ákvarðanir sem kannski ekki allir eru ánægðir með. Ég er í hörkusamkeppni hjá mínu félagsliði um spiltíma og það myndi veikja mína stöðu virkilega í liðinu að fara á þessum tíma. Það er eitthvað sem ég hef ekki efni á eins og er."

„Með deild og bikar erum við að spila fimmtán leiki á rúmum þremur mánuðum og í ár verður ekkert jólafrí í þýsku deildinni. Svo koma þessir átta landsleikir ofan á það. Þetta mun bitna á leikmönnunum til lengri tíma, menn fá styttra sumarfrí og þetta er mjög langt tímabil. Vonandi endar tímabilið á því að við förum á EM næsta sumar. Þá verða menn á ákveðnum tímapunktum að taka ákvarðanir sem hjálpa þeim að eiga gott tímabili og koma í betra formi á EM. Við eigum eftir að koma okkur þangað en það er stefnan."

Það hjálpar okkur að breikka hópinn og bæta í samkeppnina
Þar sem lykilmenn verða fjarverandi í komandi landsleikjum er ljóst að tækifæri opnast fyrir yngri leikmenn.

„Þegar menn eru meiddir eða gefa ekki kost á sér þá er tækifæri fyrir aðra. Þannig fékk maður sjálfur upphaflega sín tækifæri. Við eigum marga unga leikmenn sem eru að koma upp núna og hafa verið að gera góða hluti með sínum liðum. Það verður spennandi að sjá þá í nýju umhverfi með landsliðinu," segir Alfreð.

„Það mun hjálpa okkur að breikka hópinn og bæta í samkeppnina. Það er gott fyrir liðið ef það koma yngri leikmenn og ýta á þá sem hafa verið í lengri tíma í liðinu. Það hefur vonandi góð áhrif á lengri tíma."
Athugasemdir
banner
banner
banner