Mikið hefur verið rætt um miðjumanninn Kobbie Mainoo sem hefur ekkert komið við sögu í fyrstu leikjum Manchester United á nýju úrvalsdeildartímabili.
Mainoo sat á bekknum í tapi gegn Arsenal og jafnteflisleik gegn Fulham áður en hann fór í byrjunarliðið fyrir leik gegn D-deildarliði Grimsby Town í deildabikarnum.
Mainoo var einn af betri leikmönnum Rauðu djöflanna í vandræðalegu tapi gegn Grimsby í gærkvöldi, þar sem viðureignin fór alla leið í vítaspyrnukeppni. Þar höfðu heimamenn betur eftir 13 spyrnur í ótrúlega spennandi vítakeppni.
Rúben Amorim þjálfari Man Utd segist hafa mikla trú á Mainoo þó að leikmaðurinn hafi ekki enn komið við sögu í úrvalsdeildinni.
„Í mínum huga er mikilvægt að Kobbie berjist um byrjunarliðssætið. Ég hef mikla trú á honum, meiri en fók heldur," sagði Amorim fyrir upphafsflautið í Grimsby.
„Hann er að berjast við Bruno Fernandes um sæti í byrjunarliðinu og það er erfitt. Við eigum eftir að sjá betur hvort þeir geti spilað saman á miðjunni. Það sást í leiknum gegn Fulham að við þurfum að bæta okkur á miðjunni."
Til gamans má geta að Jason Daði Svanþórsson er á mála hjá Grimsby. Hann var þó ekki með gegn Man Utd vegna hnémeiðsla sem hafa haldið honum frá keppni í allt sumar.
27.08.2025 10:41
„Þú þarft engan sérfræðing til að sjá það"
Athugasemdir