Það fór ansi illa í alla innan Real Madrid að Vinicius Junior væri ekki valinn leikmaður ársins.
Greint var frá því fyrr í dag að Rodri fengi Ballon d'Or verðlaunin í ár en það verður staðfest í athöfn sem hefst klukkan 19:45 í kvöld.
Vinicius Junior hefur verið talinn líklegastur til að hreppa verðlaunin undanfarið en hann mun ekki vera viðstaddur eftir að í ljós kom að Rodri yrði valinn. Þá verður enginn annar leikmaður liðsins á staðnum né Carlo Ancelotti eða Florentino Perez, forseti félagsins.
Spænski miðillin AS vitnar í heimildamann Real Madrid en spænsku risarnir eru allt annað en sáttir að Vinicius muni ekki hreppa verðlaunin.
„Ef forsendur verðlaunanna lýsa ekki Vinicius sem sigurvegara, þá verða sömu forsendur að lýsa Carvajal sem sigurvegara. Þar sem þetta er ekki raunin er augljóst að Ballon d'Or og UEFA virða ekki Real Madrid. Real Madrid verður ekki þar sem það er ekki virt."
Rodri var besti leikmaður englandsmeistara Man City og Evrópumeistara Spánverja. Carvajal var einnig í spænska landsliðshópnum og þá var hann í liði Real Madrid sem vann spænsku deildina og Meistaradeildina.