Norski sóknarmaðurinn Benjamin Stokke er við það að ganga í raðir Breiðabliks eftir að hafa verið markahæsti leikmaður norsku B-deildarinnar á síðasta tímabili.
Framherjinn á 73 mörk í tveimur efstu deildunum í Noregi, en hann skoraði 16 mörk og endaði markahæstur er Kristiansund kom sér upp í efstu deild undir lok síðasta árs.
Blikinn Brynjólfur Andersen Willumsson var samherji hans og segir hann við Fótbolta.net að Stokke sé sóknarmaður sem sé mjög öflugur teignum.
„Hann er alvöru skrokkur og ef hann fær þjónustu þá er hann geggjaður í teignum," segir Brynjólfur um Stokke í samtali við Fótbolta.net. „Hann er toppgæi og mjög góður í klefanum."
Brynjólfur telur að Stokke geti gefið Breiðabliki mikið ef hann gengur í raðir félagsins eins og allt bendir til. „Hann getur gefið Blikaliðinu mörk og mikla reynslu líka."
En hvað getur Stokke skorað mikið í Bestu deildinni í sumar?
„Það fer bara eftir hvernig liðinu gengur, en ég segi 15 stykki án þess að setja of mikla pressu á minn mann," segir Brynjólfur.
Stokke var eins og áður segir síðast á mála hjá Kristiansund í norsku B-deildinni, en hann hefur einnig spilað fyrir Vålerenga, Levanger, Mjöndalen, Sandefjord og Randers.
Athugasemdir