„Ég tók þátt í Getraunadeildinni og mig minnir að það hafi verið skemmtileg deild. Lengjan er komin núna og það er mjög gott," sagði Sigurbjörn Hreiðarsson, þjálfari Grindavíkur, við Fótbolta.net í dag um tíðindi dagsins en 1. deildin mun í sumar heita Lengjudeildin.
Grindvíkingar eru að undirbúa sig fyrir komandi tímabil í Lengjudeildinni og þeir unnu ÍR 2-0 í vikunni.
Grindvíkingar eru að undirbúa sig fyrir komandi tímabil í Lengjudeildinni og þeir unnu ÍR 2-0 í vikunni.
„Það voru tveir mánuðir og tuttugu dagar á milli leikja hjá okkur svo auðvitað voru hnökrar hér og þar. Það voru líka ágætis punktar. Við vorum bara ánægðir með að komast í fótbolta," sagði Sigurbjörn en hann segir stefnuna á að endurheimta sætið í Pepsi Max-deildinni.
„Við ætlum að gera tilkall í að vera samkeppnishæfir um að komast upp úr Lengjudeildinni. Við teljum okkur vera með lið sem getur barist um það en það eru mörg lið um hituna."
„ÍBV eru líklegastir eins og staðan er núna. Þeir eru með þjálfara sem er nýbúinn að fara með lið upp. Þeir eru með toppleikmenn og metnaðarfullan klúbb. Þeir eru sigurstranglegastir í 1. sætið eins og er."
„Keflavík eru mjög góðir líka. Ég sá þá spila fyrir tveimur dögum og leist mjög vel á þá. Þeir eru gríðarlega sterkir. Við spiluðum við Þórsarana fyrir Covid og þeir litu mjög vel út. Þeir voru grimmir. Leiknismenn eru sterkir og Framararnir góðir. Ég er örugglega að gleyma einhverjum. Það verður mjög erfitt að fara út á land og spila. Þetta verður þétt en eins og staðan er akkúrat núna eru Eyjamenn, Þór og Keflavík líklegust."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir