Hamza Igamane verður brátt nýr liðsfélagi Hákons Arnars Haraldssonar hjá Lille eftir að franska félagið ákvað að virkja riftunarákvæðið í samningi hans við Rangers.
Ákvæðið hljóðar upp á 12 milljónir evra og er Igamane mjög spenntur fyrir félagaskiptunum.
Hann skoraði 16 mörk á sínu fyrsta tímabili með Rangers og vakti meðal annars áhuga frá Wolves og Brentford í sumar, en heldur til Lille. Hann á að hjálpa til við að fylla í skarðið sem Jonathan David skilur eftir með félagaskiptum sínum til Juventus.
Igamane valdi Lille framyfir ýmis önnur félög til að flytja sig nær fjölskyldu sinni sem býr í Frakklandi. Hann gerir fimm ára samning við félagið.
Igamane er 22 ára gamall og spilaði sinn fyrsta A-landsleik fyrir Marokkó fyrr á árinu.
Framherjinn var á bekknum hjá Rangers sem gerði 1-1 jafntefli við St. Mirren í skosku deildinni um helgina og neitaði að koma inná þegar Russell Martin þjálfari vildi gera skiptingu.
Igamane er áttundi leikmaðurinn til að ganga til liðs við Lille í sumar og mun berjast við gömlu kempuna Olivier Giroud um sæti í byrjunarliðinu.
Giroud er að verða 39 ára gamall í lok mánaðar en hefur byrjað tímabilið ótrúlega vel með Lille. Hann skoraði þrjú mörk í þremur leikjum á undirbúningstímabilinu og er kominn með tvö mörk í tveimur leikjum á nýju tímabili í Ligue 1.
Athugasemdir