Douglas Luiz fer til Juve - Man Utd í viðræðum um Leny Yoro - Lazio býður í Greenwood - Wan-Bissaka til Tyrklands - West Ham vill Calvert-Lewin -...
   fim 30. maí 2024 15:00
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Goal 
Yngsti stjóri Bundesligunnar er mjög áhugaverður
Skál! Fabian Hurzeler fagnar sæti í efstu deild.
Skál! Fabian Hurzeler fagnar sæti í efstu deild.
Mynd: Getty Images
Hurzeler með blys.
Hurzeler með blys.
Mynd: Getty Images
Hurzeler er einhleypur og vinnur langa vinnudaga.
Hurzeler er einhleypur og vinnur langa vinnudaga.
Mynd: Getty Images
Fróðlegt verður að sjá hvernig St. Pauli vegnar í Bundesligunni á næsta tímabili.
Fróðlegt verður að sjá hvernig St. Pauli vegnar í Bundesligunni á næsta tímabili.
Mynd: Getty Images
Vincent Kompany var í gær ráðinn stjóri Bayern München en hann verður þriðji yngsti stjóri þýsku Bundesligunnar á næsta tímabili. Kompany er 38 ára, Ole Werner stjóri Werder Bremen er 36 ára en sá yngsti er Fabian Hurzeler stjóri nýliða St. Pauli sem er 31 árs.

Til að setja aldur Hurzeler í samhengi er hann þremur árum yngri en Thomas Muller og Toni Kroos. Hann er jafnaldri Antonio Rudiger og var liðsfélagi Emre Can sem leikmaður yngri liða Bayern München

Þýskir fjölmiðlar segja St. Pauli hafa fundið falinn demant í Hurzeler sem tókst að stýra liðinu upp í deild þeirra bestu. En hver er þessi ungi maður sem er að slá í gegn í þýska boltanum?

Fæddist í Bandaríkjunum
Hurzeler hefur skiljanlega verið líkt við Julian Nagelsmann sem nú stýrir þýska landsliðinu. Talað er um hann sem undrabarn í þjálfun og hann segist upp með sér yfir umræðunni.

„Ég verð að halda í auðmýktina, ég verð að fara mína eigin leið. Ég á enn margt eftir ólært. Þetta snýst ekki bara um að lesa það sem gerist á vellinum, þetta snýst til dæmis líka um hvernig þú höndlar fjölmiðla. Julian Nagelsmann fór sína leið og ég reyni að fara leið Fabian Hurzeler. Ef ég næ árangri eins og Nagelsmann verð ég ánægður," segir Hurzeler.

Hurzeler fæddist í Houston í Bandaríkjunum og er sonur svissnesks föðurs og þýskrar móður. Foreldrar hans unnu tímabundið í Bandaríkjunum og þar bjó hann fyrstu ár ævi sinnar. Hann hefur allan sinn fótboltaferil verið í Þýskalandi.

Hann lék fyrir varalið Bayern, Hoffenheim og 1860 München áður en hann varð spilandi þjálfari hjá smáliðinu FC Pipinsried. Hann varð síðan aðstoðarþjálfari hjá yngri landsliðum Þýskalands áður en hann var ráðinn aðstoðarmaður Timo Schultz hjá St. Pauli 2020.

„Ég fæddist í Bandaríkjunum og ég er með nokkur persónueinkenni þaðan. Ég er mjög opinn fyrir öllu og öllum. Ég reyni að leggja hart að mér til að upplifa drauminn," segir Hurzeler sem fer til fæðingarlandsins þegar hann tekur sér frí.

Fannst hann ekki tilbúinn
Þegar Schultz var rekinn 2022 var Hurzeler ráðinn stjóri til bráðabirgða. Eftir aðeins tvær vikur var hann ráðinn til frambúðar og varð yngsti þjálfari B-deildarinnar, aðeins 29 ára. Stöðugar framfarir hafa verið hjá St. Pauli síðan hann tók við og komst upp í efstu deild fyrr í þessum mánuði.

Hurzeler segist hafa verið meðvitaður um það frá byrjun að það yrði erfitt að stíga upp í það hlutverk að verða aðalþjálfari.

„Ég get verið hreinskilinn, þegar ég tók við fannst mér ég ekki tilbúinn. Ég einbeitti mér bara að hlutum sem ég gat haft áhrif á og að mínu starfi. Það er minn helsti styrkleiki. Ég hef reynt að vera opinn við leikmenn og gefa þeim hugmyndir um hvernig þeir geta bætt sig. Ég tala við þá sem jafnoka og sýni þeim að ég vil að þeir taki framförum. Þeir fundu fyrir því og hlustuðu betur á mig," segir Hurzeler.

„Það er mjög mikilvægt að þú sért ekta, að þú sért þú sjálfur fyrir framan þá. Þú þarft líka að stjórna því þú tekur erfiðu ákvarðanirnar. Þeir þurfa að gera sér grein fyrir því að ég er einstaklingurinn sem gæti sært þá. Stundum þarf að taka ákvarðanir sem leikmenn eru ekki sammála en þeir þurfa að sætta sig við það. Það þarf að finna jafnvægið í þessu."

Hefðbundinn dagur hjá Hurzeler hefst klukkan 8 um morguninn þegar hann mætir á skrifstofuna. Hann fer oft ekki heim fyrr en klukkan 9 um kvöldið.

„Ég fer aldrei heim og hugsa að ég hafi unnið of lengi. Ég kem heim og hugsa hvað ég get gert til að bæta hlutina. Ég er ekki að lifa venjulegt líf 31 árs einstaklings. Ég er einhleypur og væri við venjulegar aðstæður að fara út á lífið en það er ekki eitthvað sem ég vil. Ég elska starf mitt og það er mín ástríða. Áhugamálið mitt er starfið og ég er þakklátur fyrir að vera í þessari stöðu," segir Hurzeler.
Athugasemdir
banner
banner
banner