ÍBV og Keflavík skildu jöfn 2-2 í Þjóðhátíðarleiknum í Bestu deildinni í dag.
Lestu um leikinn: ÍBV 2 - 2 Keflavík
Sigurður Ragnar Eyjólfsson var svekktur með að ná ekki í stigin þrjú í dag.
„Við vildum vinna þennan leik en við lentum tvisvar undir. Eyjamenn komu brjálaðir inn í leikinn, mikil pressa, mikið hlaup á þeim og barátta. Við vorum eftirá í byrjun en svo unnum við okkur inn í leikinn og jöfnum hann sem var gott," sagði Sigurður.
„Eftir því sem leið meira á leikinn komumst við meira og meira inn í hann og þorðum meira að hafa boltann og sköpuðum okkur haug af færum í restina, mér fannst við eiga leikinn síðustu 10-15 mínúturnar."
Hann var ánægður með andann í liðinu.
„Við höfum verið að tapa undir restina í síðustu tveimur leikjum. Við sýndum 'spirit' að koma til baka, jafna tvisvar og leggja allt í að vinna leikinn," sagði Sigurður Ragnar.