
Keflvíkingurinn Gabríel Aron Sævarsson þreytti frumraun sína með ÍR-ingum í 1-0 sigrinum á Selfyssingum í Lengjudeildinni í kvöld, en hann kom til félagsins á dögunum á láni frá Breiðabliki.
Lestu um leikinn: Selfoss 0 - 1 ÍR
Gabríel hafði gert samkomulag við Breiðablik um að ganga í raðir félagsins eftir tímabilið. Keflvíkingar tilkynntu Gabríel stuttu síðar að hann yrði ekki meira með liðinu í sumar eftir að hann samdi við Breiðablik.
Blikar eru ríkjandi Íslandsmeistarar og í titilbaráttu þannig félagið taldi réttast að senda hann til ÍR á lán út tímabilið sem Gabríel var bara mjög sáttur með.
„Það er helvíti gaman og tekið vel á móti mér. Þetta er heimaklúbbur þannig tekið vel á móti manni og ég gæti ekki verið ánægðari,“ sagði Gabríel við Fótbolta.net
Hann tjáði sig þá aðeins um þessa síðustu daga hjá Keflavík.
„Mér er tilkynnt að ég verði ekki meira í hóp hjá Keflavík eftir að ég samdi við Breiðablik á þessu tímabili og þá gerðust hlutirnir fljótt. Ég samdi við Breiðablik og þeir sögðu að það væri best fyrir mig að fara á lán og þetta var bara góður möguleiki og þekki Jóa vel, þannig þetta var fljótt gert.“
Gabríel byrjaði tímabilið mjög vel hjá Keflavík, en hætti síðan að fá að spila. Hann sýndi því þó skilning.
„Það er mín upplifun en held að það sé bara verið að prófa nýja leikmenn. Það voru framherjar sem voru mjög fínir og voru að spila sjálfir, þannig það var verið að gefa þeim séns og Mudri skoraði bara þannig ef þú skorar þá helduru áfram. Það er ekkert sem ég get sett út á Keflavík fyrir það,“ sagði Gabríel sem sagði ekkert sérstakt hafa komið upp. „Nei ekkert svoleiðis. Ég fór yfir í Breiðablik og mér var tilkynnt þetta. Ég er bara sáttur.“
Gabríel var að hugsa um að fara í háskólanám í Bandaríkjunum áður en tilboðið kom frá Blikum, en hann gat ekki hafnað einu stærsta félagi landsins.
„Ég var kominn í þá áttina að ég var að fara í skóla í Bandaríkjunum en svo kom Breiðablik á borðið og það er erfitt að segja nei við það. Stór klúbbur og helvíti sáttur við að vera með minn fókus á ÍR, gera vel og fara upp með þá."
Öll einbeiting er komin á ÍR sem tyllti sér aftur á topp Lengjudeildarinnar.
„Ég er spenntur og gaman að vera kominn í smá toppbaráttu. Það er samt bara að fókusa á næsta leik. Maður getur ekki farið yfir um sig,“ sagði hann í lokin.
Lengjudeild karla
Lið | L | U | J | T | Mörk | mun | Stig |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1. ÍR | 15 | 9 | 5 | 1 | 27 - 12 | +15 | 32 |
2. Njarðvík | 15 | 8 | 7 | 0 | 36 - 14 | +22 | 31 |
3. Þróttur R. | 15 | 8 | 4 | 3 | 28 - 23 | +5 | 28 |
4. Þór | 15 | 8 | 3 | 4 | 34 - 22 | +12 | 27 |
5. HK | 15 | 8 | 3 | 4 | 26 - 18 | +8 | 27 |
6. Keflavík | 15 | 7 | 4 | 4 | 34 - 24 | +10 | 25 |
7. Völsungur | 15 | 5 | 3 | 7 | 25 - 31 | -6 | 18 |
8. Grindavík | 15 | 4 | 2 | 9 | 29 - 42 | -13 | 14 |
9. Selfoss | 15 | 4 | 1 | 10 | 15 - 30 | -15 | 13 |
10. Fylkir | 15 | 2 | 5 | 8 | 20 - 26 | -6 | 11 |
11. Fjölnir | 15 | 2 | 5 | 8 | 22 - 36 | -14 | 11 |
12. Leiknir R. | 15 | 2 | 4 | 9 | 13 - 31 | -18 | 10 |
Athugasemdir