
FH vann sannfærandi sigur á Þrótti 3-0 í Kaplakrika í kvöld, spurður um fyrstu viðbrögð eftir leik svaraði Guðni Eiríksson þjálfari FH
„Bara himinlifandi, glaður með vinnuframlag leikmanna í dag, setupið í leiknum, orkustigið á leikmönnum, baráttuviljinn, gleðin, dugnaðurinn og umfram allt krafturinn í liðinu.“
Lestu um leikinn: FH 3 - 0 Þróttur R.
„Verðskuldaður sigur hjá FH liðinu og í raun hefðum við átt að klára þennan leik í fyrri hálfleik.“
FH átti urmul færa í fyrri hálfleik en náðu þó ekki að brjóta ísinn fyrr en á 43. mínútu þegar Thelma Lóa setti boltann í markið.
„Gott að fá þetta mark, þurftum að bíða svolítið eftir því. Óðum í færum, stangarskot, sláarskot og bara fjölmargar frábærar stöður og fjölmargar frábærar sóknir hjá FH liðinu, mikill kraftur og hlupum yfir þróttaranna.“
„Fókuspunkturinn hjá liðinu fyrir leik var að svara fyrir tapið í síðasta leik á móti Þrótti. Það var það sem við vorum að hugsa um í klefa fyrir leikinn. Að svara fyrir skítaleik þar og ég er mjög þakklátur að þær svöruðu svo sannarlega fyrir það tap.“
„Ég talaði um það eftir síðasta leik að liðið var orðið þreytt, eðlilega 4 leikir á 12 dögum. Nú fengum við vikupásu og þá er þetta orkustigið hjá FH liðinu. Við fáum vikupásu í næsta leik og orkustigið á FH liðinu verður nákvæmlega eins.“
Viðtalið í heild má sjá í spilaranum hér að ofan.