mið 30. nóvember 2022 15:40
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Óskar Hrafn: Erum alltaf að leita að liðsstyrk
Ágúst er orðaður við Breiðablik
Ágúst er orðaður við Breiðablik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net ræddi við Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfara Breiðabliks, um leikmannamál félagsins í dag. Rætt var um leikmannahópinn og félagsskipti Breiðabliks til þessa og verður viðtalið í heild sinni birt seinna í dag.

Þegar eru fjórir leikmenn gengnir í raðir Breiðabliks frá því liðið landaði Íslandsmeistaratitlinum í síðasta mánuði. Það eru þeir Alex Freyr Elísson, Arnór Sveinn Aðalsteinsson, Eyþór Aron Wöhler og Patrik Johannessen.

Óskar var spurður hvort hann væri í leit að frekari liðsstyrk.

„Við erum alltaf að leita að liðsstyrk, inn á við og út á við. Annars værum við ekki að vinna vinnuna okkar. Það er ekkert sem er 100% klárt í dag, en við erum alltaf að skoða spá og spekúlera, velta þessu fyrir okkur," sagði Óskar.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net mun Ágúst Eðvald Hlynsson spila á Íslandi á næsta tímabili. Hingað til hefur mest verið fjallað um áhuga Vals á leikmanninum en mögulega er hann að færast nær Breiðabliki þar sem hann spilaði í yngri flokkunum og sína fyrstu meistaraflokksleiki.

Ágúst lék með Val á láni á síðasta tímabili en er samningsbundinn danska félaginu Horsens fram á sumarið 2024.
Athugasemdir
banner
banner