fös 31. mars 2023 20:35
Brynjar Ingi Erluson
FH áfrýjar dómi í máli Morten Beck til áfrýjunardómstóls KSÍ
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Knattspyrnudeild FH mun áfrýja dómi aga- og úrskurðarnefndar í máli Morten Beck Guldsmed til Áfrýjunardómstóls KSÍ.

Aga- og úrskurðarnefnd tilkynnti úrskurð sinn í gær en þar hafði Morten Beck betur gegn FH-ingum. Leikmaðurinn stefndi félaginu vegna vangoldinna launa en sú upphæð er talin vera á bilinu 14 til 24 milljónir íslenskra króna.

„Knattspyrnudeild FH skal sæta sekt að upphæð kr. 150.000,-. Knattspyrnulið FH í meistaraflokki karla skal sæta félagaskiptabann í eitt félagaskiptatímabil ef ekki er gengið frá uppgjöri í samræmi við niðurstöðu samninga- og félagaskiptanefndar frá 10. ágúst 2022 innan 30 daga frá því að úrskurður þessi er kveðinn upp." segir í úrskurðinum.

Ef FH greiðir ekki upphæðina innan 30 daga mun félagið fara í félagaskiptabann í eitt tímabil.

FH sendi frá sér yfirlýsingu í kvöld og hefur félagið ákveðið að áfrýja dómnum til Áfrýjunardómstóls KSÍ.

„Knattspyrnudeild FH mun áfrýja dómi Aga- og úrskurðarnefndar í máli Morten Beck Guldmsed til Áfrýjunardómstóls KSÍ.“

„Knattspyrnudeild FH hefur staðið skil á öllum greiðslum til leikmannsins samkvæmt samningi og hafnar því alfarið að hafa ekki staðið við fjárhagslegar skuldbindingar gagnvart leikmanninum.“


Sjá einnig:
FH í félagaskiptabann ef það gerir ekki upp við Morten innan mánaðar
Athugasemdir
banner
banner
banner