Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
banner
   mán 31. ágúst 2020 12:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Frá Haukum að Meistaradeildartitlinum
Leið Söru Bjarkar á toppinn
Sara áritar treyju hjá ungri Haukastelpu.
Sara áritar treyju hjá ungri Haukastelpu.
Mynd: Hulda Margrét
Í unglingalandsleik.
Í unglingalandsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara spilaði fyrsta A-landsleikinn aðeins 16 ára.
Sara spilaði fyrsta A-landsleikinn aðeins 16 ára.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara fór úr Haukum í Breiðablik.
Sara fór úr Haukum í Breiðablik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í landsliðsverkefni árið 2009.
Í landsliðsverkefni árið 2009.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, sem valdi hana fyrst í A-landsliðið þegar hún var leikmaður Hauka.
Sara og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, sem valdi hana fyrst í A-landsliðið þegar hún var leikmaður Hauka.
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Marki fagnað með Rosengård þar sem Sara varð Svíþjóðarmeistari fjórum sinnum.
Marki fagnað með Rosengård þar sem Sara varð Svíþjóðarmeistari fjórum sinnum.
Mynd: Getty Images
Tvær af bestu fótboltakonum sem Ísland hefur átt.
Tvær af bestu fótboltakonum sem Ísland hefur átt.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með Wolfsburg gegn Þór/KA í Meistaradeildinni.
Í leik með Wolfsburg gegn Þór/KA í Meistaradeildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Fyrirliði Íslands á EM 2017. Er fyrirliði landsliðsins í dag.
Fyrirliði Íslands á EM 2017. Er fyrirliði landsliðsins í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Landsleikirnir eru orðnir 131 talsins.
Landsleikirnir eru orðnir 131 talsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á heimaslóðum.
Á heimaslóðum.
Mynd: Hulda Margrét
Markmiði náð. Með Meistaradeildarbikarinn eftir sigur gegn gömlu félögunum í Wolfsburg í úrslitaleiknum.
Markmiði náð. Með Meistaradeildarbikarinn eftir sigur gegn gömlu félögunum í Wolfsburg í úrslitaleiknum.
Mynd: Getty images
Sara Björk Gunnarsdóttir náði í gær áfanga sem öllum knattspyrnumönnum- og konum dreymir um að ná. Hún vann Meistaradeild Evrópu.

Sara mætti sínu gamla félagi, Wolfsburg frá Þýskalandi, í úrslitaleiknum og var algerlega frábær í leiknum. Hún stjórnaði ferðinni á miðsvæðinu, hljóp eins og enginn væri morgundagurinn og skoraði markið sem gerði út um leikinn.

Úrslitin:
Meistaradeild kvenna: Sara Björk meistari með Lyon

Sara er 29 ára gömul og er einn besti íþróttamaður sem Ísland á. Hún var í þriðja sæti í kjörinu á íþróttamanni ársins á síðasta ári, en ef hún vinnur verðlaunin ekki í ár, þá væri það frekar skrítið - eftir að hafa orðið annar Íslendingurinn í sögunni til að vinna Meistaradeildina. Landsliðsfyrirliðinn er einstakur karakter og Bára Kristbjörg Rúnarsdóttir sagði það best í Meistaradeildarmörkunum á Stöð 2 Sport 2 í gær:

„Sara er dæmigert eintak sem sýnir hvað þarf til að ná árangri. Hún er ekki með hæfileika eins og Messi, náttúrulega hæfileika sem eru út úr þessum heimi. Ástæðan fyrir því að hún nær árangri er þetta vinnueðli, þessi keppnismanneskja og þessi einbeiting. Maður hefur sjaldan séð annað eins hugarfar. Hún er ekki bara góð fótboltakona, hún er einn af allra besta íþróttamönnum sem við höfum átt."

Margrét Lára Viðarsdóttir þekkir Söru vel úr landsliðinu. Hún sagði: „Við erum búin að tala um karakterinn innan vallar, en svo er hún ofboðslega ljúf og góð utan vallar. Hún er alltaf tilbúin að gefa af sér til liðsins. Hún er mikill húmoristi og kann þessa réttu blöndu að vera hörð innan vallar og létt og ljúf utan vallar."

Leiðin að Meistaradeildargullinu byrjaði hjá Haukum í Hafnarfirði þar sem Sara steig sín fyrstu skref. Leiðin hefur ekki alltaf verið greið.

Komst í landsliðið sem leikmaður Hauka
Ef leitað er eftir nafninu "Sara Björk Gunnarsdóttir" í fréttaleit Fótbolta.net er elsta fréttin frá 2004. Hana skrifar Mist Rúnarsdóttir, sem starfar enn fyrir miðilinn, um sigur Hauka á Ægi í 1. deild kvenna. Haukar unnu 7-1 sigur, en á miðsvæði Hauka fór 13 ára gömul Sara Björk á kostum.

„Besti leikmaður vallarins var hin unga og bráðefnilega Sara Björk Gunnarsdóttir úr Haukum sem er aðeins á fjórtanda ári. Fædd 1990 og þar af leiðandi nýfermd!!! Hún "brilleraði" á miðjunni, átti frábærar sendingar, staðsetti sig vel, hljóp eins og "vindurinn" á (Bl)Ásvöllum og lék sér að því að sóla andstæðinga sína upp úr skónum," skrifaði Mist um Söru.

Sumarið 2007, þá 16 ára og í liði Hauka í 1. deild, var Sara valin í A-landsliðið. Sara hafði staðið sig vel sem fyrirliði U17 landsliðsins og í U19 landsliðinu. Það vel að Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þáverandi landsliðsþjálfari, tók þá ákvörðun að velja hana í A-landsliðið. Það sem meira er að þá var Sara valin í landsliðið stuttu eftir að hafa jafnað sig á krossbandsslitum. Við meiðslin kom í ljós þetta magnaða hugarfar sem Sara hefur. Hún taldi ferilinn vera á enda þegar hún var aðeins 15 ára, en hún gafst ekki upp.

„Ég var bara dugleg að byggja mig upp og ætlaði mér að koma tvöfalt sterkari til baka," sagði Sara í viðtali við Fótbolta.net árið 2007. „Það er náttúrulega erfitt þegar maður meiðist svona en ég fékk svo góðan stuðning. Ég ætlaði mér alltaf að koma aftur og kom sterk til baka."

Á tíu mánuðum kom Sara sér í leikform, byrjaði að spila fyrir meistaraflokk Hauka, fyrir U17 og U19 ára landslið Íslands og svo fyrir A-landsliðið.

Hún lék sinn fyrsta A-landsleik í óvæntu tapi gegn Slóveníu 2007, þá 16 ára. Núna eru landsleikirnir orðnir 131 talsins.

„Ég hef gengið í gegnum mótlæti síðan ég var 15 ára. Þá lenti ég í meiðslum sem ég hélt að myndi valda þess að ég færi ekki að spila fótbolta aftur. Ég sleit þá krossband og það brotnaði bein úr lærleggnum mínum og ég var frá í tvö ár. Ég lenti í þessum meiðslum á skólaferðalagi á Reykjum. Ég hélt að ferilinn væri búinn. Þá gerði ég mér ótrúlega mikla grein fyrir því hvað ég elska fótbolta mikið og hversu mikils virði hann er fyrir mig," sagði Sara í viðtali í hlaðvarpsþættinum Millivegurinn á síðasta ári.

„Ég horfi á mótlæti sem lærdóm og það gerir mig að betri manneskju og betri leikmanni líka," sagði Sara en nánar má lesa um viðtalið hérna.

Sara lék með Haukum til 2008, en þrátt fyrir að vera í 1. deild var hún áfram valin í landsliðið. Hún spilaði 11 leiki í 1. deild 2007 og skoraði 13 mörk. Sumarið 2008 spilaði hún átta leiki í deildinni og skoraði fimm mörk. En sumarið 2008 var kominn tími á stærra skref. Um mitt sumar heyrðist af miklum áhuga úr efstu deild, Breiðablik, KR og Stjarnan voru sögð áhugasöm. Síðar kom Valur inn í myndina.

Guðbjörg Gunnarsdóttir, núverandi landsliðsmarkvörður, tók viðtal við Söru 2008 sem má lesa hérna og spurði hana út í áhuga frá félögum í efstu deild. „Ég get alveg staðfest að ég hef átt í samræðum við þessi lið en hef ekkert ákveðið enn," sagði Sara en tæplega viku eftir að viðtalið var tekið samdi hún við Breiðablik á lánssamningi.

Heillaði meira en hin liðin
„Liðið heillaði mig bara meira en hin liðin," sagði Sara um ákvörðun sína að fara í Breiðablik. „Þetta eru yngri stelpur og efnilegur hópur. Þessi hópur hefur heillað mig síðan í fyrra og ég ræddi við Breiðablik fyrir tímabilið."

Sara fékk strax hlutverk í úrvalsdeildarliði Breiðabliks, sem hafði misst leikmenn í meiðsli fyrir komu hennar til félagsins

„Ég átti mjög erfitt með að fara frá Haukum. Ég var búin að hugleiða þetta svolítið og finnst rosalega erfitt að fara frá uppeldisfélaginu mínu," sagði Sara en fyrir leikmann í A-landsliðinu var þetta rökrétt skref.

Sumarið 2008 spilaði Sara sex leiki með Breiðabliki í efstu deild og skoraði fjögur mörk. Það var alveg ljóst að hún var tilbúin í efstu deild. Salih Heimir Porca tók við Haukum eftir tímabilið 2008 og reyndi að sannfæra Söru að halda áfram á Ásvöllum en leikmaður með hennar hæfileika átti ekki að koma nálægt 1. deildinni. Nokkrum dögum eftir að hafa hjálpað Íslandi að komast á EM 2009 gerði hún tveggja ára samning við Breiðablik.

Þarna tók Sara næsta skref á sínum ferli. Hún var búin að festa sig í sessi sem byrjunarliðsmaður í landsliðinu og sumarið 2009 spilaði hún 17 leiki af 18 deildarleikjum Breiðabliks er liðið hafnaði í öðru sæti efstu deildar á eftir Val. Í þessum 17 leikjum skoraði hún sjö mörk. Um sumarið lék hún einnig á sínu fyrsta stórmóti með landsliðinu þegar hún lék hverja einustu mínútu í töpum gegn Frakklandi, Noregi og Þýskalandi.

Sumarið 2010 var síðasta sumar Söru á Íslandi. Hún var áfram lykilmaður í Breiðabliki sem hafnaði í þriðja sæti efstu deildar. Valur tók báða titlana á Íslandi, en Sara var eftir tímabilið valin best hjá Blikum ásamt því sem hún var valin í úrvalslið tímabilsins.

Atvinnumennskan kallaði
Snemma árs 2011 fór Sara á reynslu til Malmö í Svíþjóð, sem síðar varð Rosengård. Hún spilaði æfingaleik með liðinu og skoraði mark. Í lok mars skrifaði hún undir samning við félagið. „Stelpurnar úti sem spila þarna eru mjög ánægðar með deildina og þetta er mjög gott lið og gaman að fá samkeppni. Mér finnst skemmtilegast að vera í keppni og ætla mér að komast í liðið, það er markmiðið. Það er gott að fá samkeppni því þá leggur maður ennþá harðar að sér," sagði Sara sem var þá tvítug.

Sara sló strax í gegn í Malmö og skoraði til að mynda þrennu í leik gegn Hammarby stuttu eftir að hún fór út. Hún varð meistari á sínu fyrsta tímabili hjá félaginu þar sem hún skoraði 12 mörk í 21 leik. Það var besta tímabil hennar í markaskorun í deildarkeppni. Árið 2011 kom hún greina sem íþróttamaður ársins, en Heiðar Helguson vann það ár.

Í Svíþjóð þroskaðist Sara mikið sem leikmaður og hún varð að stóru nafni í Evrópu. Hún varð sænskur meistari fjórum sinnum og bikarmeistari einu sinni. Eftir fimm ár í Svíþjóð tók hún næsta skref upp stigann þegar hún samdi við þýska félagið Wolfsburg í maí 2016.

Fullt af titlum með Wolfsburg en ekki Meistaradeildin
Sara hefur verið lykilmaður hvar sem hún hefur spilað og það var ekkert öðruvísi hjá stórliði Wolfsburg í Þýskalandi. Sama ár og Sara fór til Wolfsburg þá fór liðið í úrslitaleik Meistaradeildarinnar og tapaði gegn Lyon; og ekki í síðasta sinn. Það var áður en Sara byrjaði að spila með liðinu.

„Mér fannst kominn tími á að breyta til," sagði Sara um skipti sín til Wolfsburg. „Þegar ég var í Breiðablik þá fannst mér vera kominn tími til að fara í atvinnumennsku og þá fór ég til Rosengård. Það var mjög krefjandi verkefni á þeim tíma. Ég hef bætt mig mikið síðan þá. Wolfsburg er eitt af bestu liðum í Evrópu. Hópurinn í Wolfsburg er stærri og þar er meiri samkeppni. Það verður krefjandi að komast í liðið og halda sér í liðinu. Þetta verður krefjandi verkefni fyrir mig persónulega."

Eins og hjá Rosengård þá virtist Sara ekki þurfa mikinn aðlögunartíma í Þýskalandi. Til dæmis um það var hún tilnefnd í lið ársins í heiminum árið 2017.

Hjá Wolfsburg vann Sara þýsku tvennuna, það er að segja deildina og bikarinn, öll tímabilin sín hjá félaginu. Hún er fimmfaldur Þýskalands- og bikarmeistari. Hún var lykilmaður í þessum árangri.

Wolfsburg komst í úrslitaleik Meistardeildarinnar 2018 og mætti þá Lyon. Sara var í byrjunarliði Wolfsburg í leiknum en fór meidd af velli snemma í síðari hálfleik. Wolfsburg tapaði í framlengingu. Það voru mikil vonbrigði fyrir Söru og Wolfsburg, en hún vann allt, alltaf hjá þýska félaginu nema Meistaradeildina.

Íþróttamaður ársins og fyrirliði landsliðsins
Sem leikmaður Wolfsburg hélt Sara áfram að taka framförum. Árið 2018 var hún í 31. sæti á lista Guardian yfir bestu fótboltakonur í heimi og það sama ár var hún valin íþróttamaður ársins í fyrsta sinn, akkúrat tíu árum eftir að hafa verið valin íþróttakona ársins hjá Haukum. Ávallt síðustu ár hefur hún verið valin fótboltakona ársins en þarna fékk hún nafnbótina íþróttamaður ársins.

„Ég varð bara dof­in og var ekki viss hvort ég gæti staðið upp. Ég átti bæði von á þessu og ekki. Maður und­ir­býr bæði að maður eigi mögu­leika, sem og að ein­hver ann­ar vinni," sagði Sara í viðtali við Morgunblaðið spurð að því hvernig henni hefði liðið þegar hún var valin íþróttamaður ársins.

Sara hefur farið á þrjú stórmót með landsliðinu, Evrópumótin 2009, 2013 og 2017. Á Evrópumótinu í Hollandi var hún fyrirliði í fjarveru Margrétar Láru Viðarsdóttur, en hún hefur að mestu verið fyrirliði landsliðsins síðan þá. Margrét Lára lagði skóna á hilluna í fyrra og þá fékk Sara fyrirliðabandið til frambúðar. Í dag er hún leiðtogi og besti leikmaður landsliðsins.

Eftir fjögur ár hjá Wolfsburg var komin tími á nýja áskorun. Fyrr í sumar valdi hún nýtt félag og það hefur alltaf verið þannig með landsliðsfyrirliðann að hún hefur valið góða áskorun þar sem hún fær samkeppni, og hún virðist alltaf hafa valið rétt. Hún hefur alltaf tekið skref fram á við í betra og sterkara lið. Hún gerði það einnig í sumar þegar hún samdi við eitt besta íþróttalið veraldar: Lyon í Frakklandi.

Eitt stærsta augnablik íslenskrar íþróttasögu
Sara vann þýska meistaratitilinn í fimmta sinn og gerði svo tveggja ára samning við besta fótboltalið heims. Þegar Sara samdi við félagið hafði Lyon orðið franskur meistari 14 ár í röð og Evrópumeistari fjögur ár í röð. Það að Lyon hafi leitað til Söru til að styrkja sitt lið segir bara hversu frábær fótboltakona hún er. Til Lyon fara bara bestu fótboltakonur í heimi.

Sara vinn sinn fyrsta bikar með Lyon snemma í ágúst þegar hún varð franskur bikarmeistari með félaginu. Svo var komið að Meistaradeildinni, keppninni sem Sara átti eftir að vinna.

Sara spilaði seinni hálfleikinn í 2-1 sigri á Bayern í 8-liða úrslitum og í undanúrslitunum spilaði hún allan leikinn í 1-0 sigri á PSG. Enn og aftur var Sara fljót að aðlagast nýju félagi, það að þjálfarinn hafi treyst henni til að spila allan leikinn í undanúrslitunum segir mikið.

Í úrslitunum var Wolfsburg andstæðingurinn - það var skrifað í skýin. Sara hafði hjálpað báðum félögum að komast í úrslitaleikinn. Keppnin átti að klárast í byrjun sumars en vegna Covid-19 kláraðist hún í lok sumars og þess vegna spilaði Sara með tveimur félögum í keppninni. Hún hjálpaði Wolfsburg að komast í 8-liða úrslit og Lyon að komast í úrslitaleikinn.

Úrslitaleikurinn fór fram í gærkvöldi og var Sara eins og fyrr segir mögnuð í úrslitaleiknum. Hún skoraði á 88. mínútu í 3-1 sigri og lyfti loksins Meistaradeildarbikarnum. Þetta var langþráð fyrir landsliðsfyrirliðann og klárlega eitt það stærsta sem hefur gerst í íslenskri íþróttasögu.

Sá getur allt sem trúir
Sara gaf út bók í fyrra sem ber heitið Óstöðvandi. Magnús Örn Helgason, þjálfari kvennaliðs Gróttu, gerði bókina með Söru og hann birti athyglisvert brot úr bókinni á Twitter í gær.

„'Hvað tekur svo við þegar skórnir eru komnir upp á hilluna?' er spurning sem ég fæ reglulega, og hef margoft spurt sjálfa mig," segir Sara í bókinni.

„Í sannleika sagt veit ég ekki svarið ennþá. Á meðan ég fæ tækifæri til að gera það sem ég elska þá nenni ég ekki að stressa mig of mikið á framtíðinni. Mér finnst ég eiga nóg eftir sem fótboltakona. Til dæmis á ég ennþá eftir að vinna Meistaradeildina. Mig dreymir um að leiða landsliðið á allavega eitt stórmót til viðbótar. Svo væri gaman að spila í öðru landi áður en ferlinum lýkur."

„Þetta eru háleit markmið - en munum að sá getur allt sem trúir."

Sara er núna búin að klára tvö af þessum markmiðum sínum og svo gæti farið að hún leiði landsliðið á EM 2022, en liðið hefur unnið alla sína leiki í undankeppninni til þessa.

Ferill Söru hefur verið magnaðu og alltaf hefur hún tekið skref upp á við, á hárréttum tíma; frá Haukum að Meistaradeildargulli.

Hún er frábær fótboltakona og fullkomin fyrirmynd fyrir allar fótboltastelpur og auðvitað stráka líka. Hún hefur aldrei látið mótlætið stöðva sig og það hefur komið henni á toppinn. Og hún hefur ekki sagt sitt síðasta.

Sjá einnig:
Sara vill alltaf meira - Einn besti íþróttamaður sem við höfum átt


Athugasemdir
banner
banner