Ekitike áþjáður í að fara til Liverpool og hefur farið fram á sölu - Wissa vill frekar fara til Tottenham en Newcastle
   fim 23. ágúst 2007 08:00
Mist Rúnarsdóttir
Sara Björk Gunnarsdóttir: Í A-landsliðið 10 mánuðum eftir erfið meiðsli
Kvenaboltinn
Sara Björk spilaði vel með U19 í sumar.
Sara Björk spilaði vel með U19 í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Margar upprennandi fótboltakonur hafa verið í umræðunni í sumar en fáar hafa vakið jafnmikla athygli og Sara Björk Gunnarsdóttir leikmaður Hauka.

Sara Björk, sem er á sautjánda ári, var fyrirliði U17 ára landsliðsins á Norðurlandamótinu í Noregi og lék einnig með U19 liðinu í Evrópukeppninni sem haldin var hér á landi í júlí. Þar stóð hún sig gríðarlega vel og var ein af okkar bestu leikmönnum.

Frammistaða hennar með unglingalandsliðunum og Haukaliðinu í 1.deildinni hefur vakið mikla athygli. Á meðal þeirra sem hún hefur heillað með frammistöðu sinni er Sigurður Ragnar Eyjólfsson landsliðsþjálfari en hann valdi hana í A-landsliðshópinn sem leikur gegn Slóveníu í Dravograd á sunnudaginn.

Aðspurð um hvort að hún hafi átt von á sæti í A-landsliðshópnum svaraði Sara Björk: „Nei, eiginlega ekki. Ekki svona ung” en hún er hvergi bangin og hlakkar til að takast á við verkefnið.

Það vita ekki allir að Sara hefur átt við erfið meiðsli að stríða og hefur í raun snúið aftur til leiks af ótrúlegum krafti. „Ég sleit krossband í apríl 2005” segir Sara sem hafði þá þegar leikið fyrir meistaraflokk Hauka í 1.deildinni en árið 2004, þá á fjórtanda ári, lék hún þrjá leiki.

Sara Björk gafst ekki upp við mótlætið heldur einbeitti hún sér að því að snúa aftur eftir krossbandaslitin. „Ég var bara dugleg að byggja mig upp og ætlaði mér að koma tvöfalt sterkari til baka.”

Að slíta krossbönd er alltaf hrikalegt enda tekur langan tíma að vinna á slíkum meiðslum og eflaust sérstaklega erfitt að sýna því þolinmæði þegar maður er 15 ára. Var aldrei inni í myndinni að gefast upp?

„Það kom alveg fyrir. Það er náttúrulega erfitt tímabil þegar maður meiðist svona en ég fékk svo góðan stuðning. Ég ætlaði mér alltaf að koma aftur og kom sterk til baka.”

Það er ekki langt síðan að Sara Björk gat byrjað að æfa og spila að nýju eftir meiðslin.

„Ég byrjaði að æfa létt í nóvember 2006 og svo að spila í byrjun 2007.” Það er því ljóst að Sara Björk hefur unnið ótrúlegt afrek. Á tíu mánuðum hefur hún komið sér í leikform, byrjað að spila fyrir meistaraflokk síns félags, fyrir U17 og U19 ára landslið Íslands og nú síðast er hún valin í A-landsliðshópinn.

Það þekkist nú í gegnum tíðina að liðin í Landsbankadeildinni líta hýru auga til efnilegra leikmanna sem leika í neðri deildum og dularfullt væri ef Sara Björk hefði ekki orðið vör við það.

„Jú, jú. Það hefur aðeins verið. Ég ætla að sjá til hvað ég geri næsta vetur. Ég er ekki alveg viss” segir þessi efnilega knattspyrnukona sem hefur sýnt gríðarlegan karakter með því að sigrast á meiðslum sínum og mæta eins sterk til leiks aftur og raun ber vitni.
Athugasemdir
banner