sun 30. ágúst 2020 19:55
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Meistaradeild kvenna: Sara Björk meistari með Lyon
Sara skoraði í úrslitaleiknum!
Sara Björk Gunnarsdóttir er Evrópumeistari!
Sara Björk Gunnarsdóttir er Evrópumeistari!
Mynd: Getty Images
Marki Söru fagnað.
Marki Söru fagnað.
Mynd: Getty Images
Wolfsburg W 1 - 3 Lyon W
0-1 Eugénie Le Sommer ('25 )
0-2 Saki Kumagai ('44 )
1-2 Alexandra Popp ('58 )
1-3 Sara Björk Gunnarsdóttir ('88 )

Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði, varð í kvöld Evrópumeistari í fótbolta. Hún spilaði allan leikinn fyrir Lyon er liðið lagði Wolfsburg að velli í úrslitaleiknum á Spáni.

Sara var að spila gegn sínu fyrrum félagi, félagi sem hún hafði einnig hjálpað að komast í úrslitaleikinn.

Bæði lið fengu færi til að byrja með og var Wolfsburg ef eitthvað er líklegra liðið til að skora. En þetta Lyon-lið er magnað og þær komust yfir á 25. mínútu og var það franska landsliðskonan Eugénie Le Sommer sem skoraði eftir að hún náði frákastinu á sínu eigin skoti.

Undir lok fyrri hálfleiks tvöfaldaði Lyon forystu sína er Saki Kumagai skoraði með laglegu skoti rétt fyrir utan teig. Boltinn söng í netinu og leikmenn Lyon fóru mikið sáttari inn í leikhléið.

Í byrjun seinni hálfleiks komst Wolfsburg aftur inn í leikinn er Alexandra Popp minnkaði muninn með skalla eftir fína sókn. Wolfsburg fékk rúman hálftíma til að jafna metin, en allt kom fyrr ekki.

Sara Björk skoraði svo á 88. mínútu og gekk frá leiknum fyrir Lyon, gegn sínum gömlu félögum. Hver önnur? Hún stýrði skoti Le Sommer í markið. Magnað augnablik í íslenskri íþróttasögu.

Lyon hefur núna unnið Meistaradeildina sjö sinnum og er þetta í fimmta sinn í röð sem franska félagið vinnur keppnina. Sara Björk var í liði Wolfsburg sem tapaði fyrir Lyon í úrslitaleiknum fyrir tveimur árum síðan, en núna er hún í sigurliðinu.

Fótbolti.net sendir Söru hamingjuóskir með þennan frábæra áfanga.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner