Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   fim 06. júní 2019 13:30
Arnar Daði Arnarsson
Sara Björk meiddist illa á unglingsárunum - Hélt að ferillinn væri búinn
Sara Björk var í Haukum þegar hún meiddist illa.
Sara Björk var í Haukum þegar hún meiddist illa.
Mynd: Hulda Margrét
Mynd: Hulda Margrét
Mynd: Mirko Kappes
Sara Björk Gunnarsdóttir leikmaður Wolfsburg í Þýskalandi og íslenska landsliðsins er gestur hlaðvarpsþáttarins, Millivegurinn.

Í þættinum er farið yfir ýmislegt en þar á meðal mótlæti sem Sara Björk hefur lent í á sínum ferli. Sara sem ólst upp hjá Haukum í Hafnarfirði varð fyrir því óláni að meiðast illa á unglingsárunum í skólaferðalagi.

Í kjölfarið varð hún frá keppni í tvö ár og talar hún um í þættinum að á þeim tíma hélt hún jafnvel að ferilinn væri búinn.

„Þetta hefur ekki verið alltaf bara einhverjir titlar og árangur. Ég hef gengið í gegnum ótrúlega mikil mótlæti og það er eitthvað sem fólk sér ekki. Ég hef gengið í gegnum meiðsli, kvíða og margar ákvarðanir í mínu lífi sem ég hef tekið og enginn sér og enginn veit af. Samt þarf ég alltaf að mæta á æfingu og vera 100%. Mæta í leiki og ef einhver sér að ég er ekki 100% þá spyr sá aðili sig, "Afhverju er hún ekki 100%?" Fólk sér ekki á bakvið tjöldin," sagði Sara Björk og hélt áfram.

„Ég hef gengið í gegnum mótlæti síðan ég var 15 ára. Þá lenti ég í meiðslum sem ég hélt að myndi valda þess að ég færi ekki að spila fótbolta aftur. Ég sleit þá krossband og það brotnaði bein úr lærleggnum mínum og ég var frá í tvö ár. Ég lenti í þessum meiðslum á skólaferðalagi á Reykjum. Ég hélt að ferilinn væri búinn. Þá gerði ég mér ótrúlega mikla grein fyrir því hvað ég elska fótbolta mikið og hversu mikils virði hann er fyrir mig," sagði Sara Björk sem segist hafa lent í fleiri mótlætum bæði innan og utan vallar í sínu persónulega lífi.

Hún segir að þegar hún lendi í mótlæti þá horfi hún á það og hugsa með sér hvernig hún ætlar takast á við það. Hún segir að það séu tvær leiðir til að takast á við mótlæti. Fyrri möguleikinn er að gefast upp eða halda áfram.

„Það er eitthvað sem drífur mig áfram og hjálpar mér að koma til baka og þá vil ég sýna mig og sanna. Mótlætið gefur mér yfirleitt einhvern drifkraft í staðin fyrir að stöðva mig. Það kemur eiginlega bara innan frá. Það er ekkert utanaðkomandi sem er að draga mig áfram," sagði Sara sem segist alltaf haft mikla og sterka innri hvatninu.

„Alltaf þegar ég lendi í mótlæti þá eyði ég alltaf smá tíma þar sem ég er leið og fer í gegnum erfiðar hugsanir en síðan kemur strax upp í hausinn á mér að ég ætla að sýna mig og sanna."

Hún segir að sú hugsun hafi svolítið komið ómeðvitað þegar hún var yngri en í dag viti hún nákvæmlega hvað það gerir fyrir hana að lenda í mótlæti.

„Það gerir mig bara sterkari og ég hef þroskast svo ótrúlega mikið að ganga í gegnum mótlæti. Ég er rosalega þakklát að hafa gengið í gegnum mótlæti. Ég væri ekki þessi manneskja í dag ef ég hefði ekki gengið í gegnum þetta allt saman. Fólk þarf að lenda á vegg til þess að þroskast og lært af hlutum."

„Ég horfi á mótlæti sem lærdóm og það gerir mig að betri manneskja og betri leikmann líka," sagði Sara Björk Gunnarsdóttir í hlaðvarpsþættinum sem hægt er að hlusta á í heild sinni hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner