Pickford klárar ferilinn hjá Everton - Arsenal gæti fengið Kolo Muani - Van Nistelrooy leitar til Man Utd
   mán 31. október 2016 15:18
Magnús Már Einarsson
Kristinn Freyr: Er sáttur með tilboðið
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristinn Freyr Sigurðsson segir ekki rétt sem kemur fram í Expressen að hann sé búinn að semja við GIF Sundsvall í Svíþjóð.

„Það er ekkert blek komið á blað eins og er," sagði Kristinn léttur í bragði við Fótbolta.net í dag.

Góðar líkur eru hins vegar á að Kristinn semji við Sundsvall á næstunni en hann er með samningstilboð í höndunum frá félaginu.

„Það er komið tilboð frá þeim sem ég er sáttur við. Ég fer og skoða aðstæður um næstu helgi. Ég horfi á leik þar og hitti alla í kringum liðið og síðan verður tekin ákvörðun í kjölfarið."

Kristinn verður í Svíþjóð um næstu helgi en hann mun sjá GIF Sundsvall mæta Djurgarden í lokaumferðinni í Svíþjóð.

Hinn 24 ára gamli Kristinn er samningslaus og má því ræða við önnur félög. Hann hefur einnig verið orðaður við Östersund í Svíþjóð auk þess sem Íslandsmeistarar FH hafa sýnt honum áhuga.

Kristinn Freyr skoraði þrettán mörk í Pepsi-deildinni í sumar og var valinn besti leikmaður deildarinnar. Þá hjálpaði hann Valsmönnum að landa bikarmeistaratitlinum annað árið í röð.

GIF Sundsvall er í 13. sæti í sænsku úrvalsdeildinni í augnablikinu en liðið hefur tryggt þátttökurétt sinn í deildinni að ári. Kristinn Steindórsson er á mála hjá félaginu en Rúnar Már Sigurjónsson fór þaðan til Grasshoppers í sumar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner