Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í 1. deild í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin því stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði.
Spáin:
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. ?
9. BÍ/Bolungarvík 78 stig
10. ÍR 58 stig
11. Höttur 43 stig
12. Tindastóll 38 stig
9. BÍ/Bolungarvík
Heimasíða: bibol.is
Lokastaða í fyrra: 6. sæti í 1. deild
Skástrikið er á sínu öðru tímabili í deildinni. Liðið kom inn með pompi og prakt í fyrra og vakti mikla athygli enda var Guðjón Þórðarson þá við stjórnvölinn. Nú fara Djúpmenn inn í tímabilið með aðrar áherslur og hafa fækkað verulega í útlendingahersveit sinni.
Hvað segir Garðar Gunnar? Garðar Gunnar Ásgeirsson er álitsgjafi síðunnar um 1. deild karla. Garðar hefur verið sérfræðingur Fótbolta.net um neðri deildirnar síðustu ár. Hann þjálfaði á sínum tíma meistaraflokk Leiknis í Breiðholti með góðum árangri.
Styrkleikar: Ég verð að viðurkenna það að Skástrikið er það lið sem ég hef minnst séð til í vetur. Þeir hafa nokkra reynslumikla stráka sem koma til með að nýtast þeim vel í vetur. Hafsteinn Rúnar Helgason, Pétur Georg Markan, Haukur Ólafsson og Þórður Ingason eru allt baráttuglaðir leikmenn sem hafa reynslu og hraði Péturs getur verið sterkt vopn.
Veikleikar: Breiddin hjá þeim er ekkert sérstaklega mikil. Þar af leiðandi gætu þeir lent í vandamálum seinni hluta móts þegar meiðsli og leikbönn fara að detta inn. Vörnin er spurningamerki. Markatala liðsins í Lengjubikarnum var 5-22 sem er ekki nógu gott svo það er ljóst að það þarf að bæta bæði vörn og sókn.
Lykilmenn: Hafsteinn Rúnar Helgason, Pétur Markan og Haukur Ólafsson.
Gaman að fylgjast með: Andri Rúnar Bjarnason er leikmaður sem ég hef mikið álit á. Það er mikið spunnið í þennan hávaxna sóknarmann. Að mínu mati fékk hann of fá tækifæri í fyrra og er væntanlega þyrstur í að eiga gott sumar.
Þjálfarinn: Jörundur Áki Sveinsson er maður sem er mjög reynslumikill og hefur þjálfað víða. Hann hefur undanfarin ár verið aðstoðarmaður Heimis Guðjónssonar hjá FH og því verið í toppbaráttunni. Jörundur er flottur þjálfari en það hefur verið brekka fyrir hann að fá leikmenn til að fara vestur.
Líklegt byrjunarlið í upphafi móts:
Komnir:
Dennis Nielsen frá Danmörku
Haraldur Árni Hróðmarsson frá Hamar
Haukur Ólafsson frá ÍR
Hafsteinn Rúnar Helgason frá Stjörnunni
Helgi Valur Pálsson á láni frá FH
Jorge Santos frá Portúgal
Farnir:
Atli Guðjónsson í ÍR
Nicky Deverdics til Englands
Kevin Brown til Skotlands
Loic Ondo í Grindavík (Var á láni)
Michael Abnett til Englands
Matthías Kroknes Jóhannsson í Fram
Óttar Kristinn Bjarnason í KV
Tomi Ameobi í Grindavík
Zoran Stamenic
Fyrstu leikir BÍ/Bolungarvíkur 2012:
12. maí: BÍ/Bolungarvík - Víkingur R.
20. maí: Fjölnir - BÍ/Bolungarvík
26. maí: BÍ/Bolungarvík - Tindastóll
Athugasemdir