,,Við ætluðum að halda. Við gerðum vel á móti BÍ með að halda og vera þéttir en við fengum tvö klaufaleg mörk á okkur í byrjun," sagði Aron Örn Reynisson fyrirliði Reynis S. eftir 4-0 tap gegn Fjarðabyggð í annarri deildinni í dag.
Reynir fékk sex mörk á sig gegn Völsungi í sumar og alls hefur liðið fengið fimmtán mörk á sig í byrjun móts.
,,Við þurfum að gera eitthvað til þess að koma í veg fyrir að við fáum á okkur mörk. Þetta er eitthvað sem við þurfum að laga snöggt."
Reynismenn unnu fyrstu tvo leiki sína í sumar og eru núna með sex stig eftir fjórar umferðir.
,,Sex stig eftir fjóra leiki er ágætt en við getum gert miklu betur en þetta og við verðum að sýna það í næstu leikjum sem eru að koma."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.