Liverpool opið fyrir tilboðum í Nunez - AC Milan vill fá Rashford - Ferguson á blaði hjá West Ham
   mán 09. janúar 2012 09:00
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
Fjalar Þorgeirs: Ætla ekki að bólstra varamannabekkinn
„Ég hefði ekki giskað á þetta sjálfur þegar ég hætti í Fylki að ég myndi enda í KR. Það er margt búið að vera í gangi og á endanum var þetta besti kosturinn fyrir mig fannst mér," segir markvörðurinn Fjalar Þorgeirsson sem gekk um áramótin í raðir KR.

Fjalar hefur verið lengi í herbúðum Fylkis en það kom mörgum á óvart þegar hann samdi við KR enda er Vesturbæjarliðið með Hannes Þór Halldórson í sínum röðum.

Hannes var valinn besti leikmaður Pepsi-deildarinnar í fyrra en KR vann Íslandsmeistaratitilinn. Fjalar segist mættur í samkeppni við Hannes en ekki til að verða varamarkvörður hans.

„Það er alltaf hægt að taka Gunna Sig á þetta og bólstra varamannabekkinn eins og hann gerði í Krikanum, en ég er ekki mættur til að gera það. Ég vil verða besti leikmaður Íslandsmótsins og þetta hlýtur að vera stysta leiðin, ef ég slæ hann út þá hlýt ég að vera bestur," segir Fjalar kíminn.

„En að öllu gríni slepptu þá er ég ekki kominn til að setjast á bekkinn og hafa það náðugt. Ég er bara mættur í baráttuna og við fáum að skipta leikjunum á milli okkar á undirbúningstímanum. Ég fæ klárlega mitt tækifæri til að sýna hvað í mér býr."

Var í viðræðum við ÍBV
Fjalar var í viðræðum við önnur félög, þar á meðal ÍBV og uppeldisfélag sitt Þrótt.

„Ég var í viðræðum við Vestmannaeyinga en það er ekki einfalt þegar maður býr í bænum og er með fjölskyldu hér. Það flosnaði upp úr þeim viðræðum eftir smá tíma. Þá ákvað ég að einbeita mér að því að finna eitthvað annað."

„Ég heyrði í mínum gömlu félögum í Þrótti og var í fínu sambandi við Palla þjálfara (Pál Einarsson) en ég gerði honum það ljóst að ég vildi vera áfram í efstu deild, hefði metnað til að vera það. Ég sagði honum ekkert að vera að bíða eftir mér og missa af mönnum, hann hefur náttúrulega náð sér í markvörð núna," segir Fjalar.

„Mér bauðst að æfa með KR en þá var ekkert í myndinni hjá mér að ganga til liðs við þá. Svo líkaði mér vel og þeim leist vel á mig svo þetta endaði svona."

Sjá einnig:
Upptaka af útvarpsþættinum
banner
banner
banner