Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
   fim 30. ágúst 2012 08:30
Magnús Már Einarsson
Gummi Tóta: Held að allir nema FH-ingar haldi með okkur
Guðmundur Þórarinsson.
Guðmundur Þórarinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Þetta eru skemmtilegustu leikirninir. Á flottum velli og á móti mjög góðu FH liði. Það þarf lítið til að mótivera menn fyrir svona leik," segir Guðmundur Þórarinsson leikmaður ÍBV en liðið heimsækir FH í frestuðum leik í Pepsi-deildinni í kvöld.

ÍBV er sem stendur í þriðja sæti deildarinnar með 27 stig, átta stigum á eftir FH-ingum sem eru á toppnum.

,,Við erum í rosalegri baráttu um Evrópusæti og okkur vantar þessi þrjú stig. Ég held að allir nema FH-ingar haldi með okkur því með sigri getum við gert mótið spennandi aftur."

Guðmundur hefur ekki gefið titilvon ÍBV alveg upp á bátinn en liðið á eftir að mæta FH-ingum tvívegis. Hann segir þó að Evrópusæti sé aðalmarkmið Eyjamanna.

,,Mér finnst við vera með rosalega gott lið og ef við gleymum þessari byrjun á mótinu þegar liðið var aðeins að spila sig saman finnst mér við hafa verið að spila frábærlega. Við horfum fyrst og fremst á Evrópukeppnina núna en á meðan það er möguleiki á að taka 1. sætið dreymir öllum um það."

Í gær setti Guðmundur Þórarinsson færslu á Twitter sem vakti athygli. „Vona ad Jón Jónsson fótbrjóti mig á morgun svo hann tileinki mér lag á næstu þjóðhátíð - líka heimsókn og gjafir uppá spítala. Lúxus," skrifaði Guðmundur kíminn á Twitter og vísaði þar með í það þegar Jón Jónsson leikmaður FH fótbraut Steven Lennon framherja Fram.

,,Þetta var nú bara létt grín með Jón á Twitter. Ég nota Twitter sama og ekkert og bjóst ekki við að þetta yrði gert að fréttaefni. Þetta var ekki illa meint á neinn hátt, mér finnst Lennon flottur leikmaður og ég held rosalega upp á Jón og kann plötuna hans nánast utan að."

,,Þess vegna skrifaði ég þetta en allt auðvitað bara djók. Ég myndi aldrei nenna að millilenda á Egilsstöðum fyrir endurhæfinguna,"
sagði Guðmundur léttur í bragði að lokum og vísaði þar í Twitter færslur Lennon um að hann þyrfti að millilenda á leið sinni til Íslands frá Skotlandi í endurhæfingu.
Athugasemdir
banner
banner
banner