Kevin De Bruyne var í byrjunarliði Manchester City sem sigraði 3-1 gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni í kvöld.
De Bruyne fékk heiðursvörð og var kvaddur af tugþúsundum stuðningsmanna þar sem þetta var hans síðasti heimaleikur fyrir stórveldið eftir tíu ára dvöl.
„Manchester er heimilið mitt, börnin mín fæddust hérna. Ég bjóst ekki við að dvelja hér í tíu ár. Við höfum afrekað ótrúlega hluti saman hjá þessu félagi, við höfum gert borgina og félagið stærra og núna er komið að næstu kynslóð til að taka við keflinu," sagði De Bruyne meðal annars eftir sigurinn.
„Ég kom hingað til að spila frjálsan fótbolta þar sem sköpunarhæfileikar mínir fengu að njóta sín. Ég kom hingað til að spila af ástríðu og ég vona að allir hafa notið þess að fylgjast með. Það hefur verið sannur heiður að spila fyrir þetta risastóra fótboltafélag með svona frábæra liðsfélaga mér við hlið. Ég hef eignast marga vini hérna sem munu vera vinir mínir að eilífu. Við (hann og fjölskyldan) munum snúa aftur til Manchester."
Framtíðin er óljós hjá De Bruyne, en Belginn getur valið á milli ýmissa félagsliða víðsvegar um heiminn til að taka næsta skref á ferlinum. Hann verður 34 ára í sumar og virðist eiga nóg eftir á tankinum eftir að hafa komið við sögu í 39 leikjum á tímabilinu.
„Manchester City er skemmtilegt fótboltalið sem spilar frábæran fótbolta og sigrar leiki. Þetta er virkilega sterkt lið með eða án mín og ég er viss um að strákunum mun farnast vel á komandi árum. Ég veit að stuðningsmenn munu standa þétt við bakið á liðinu næstu tíu árin, rétt eins og þeir hafa gert síðustu tíu ár."
De Bruyne var meðal annars spurður út í arfleifð sína og styttuna sem verður reist af honum fyrir utan Etihad leikvanginn. Hann viðurkenndi að hann er ómælanlega stoltur af því sem hann hefur afrekað með félaginu.
„Eftir tíu ár var kominn tími til að einhver myndi gefa mér míkrafóninn og leyfa mér að tala aðeins og kveðja ykkur. Ég mun snúa aftur. Við elskum ykkur og munum hitta ykkur aftur bráðlega!"
Einhverjir stuðningsmenn Man City spyrja sig hvort De Bruyne sé á leið til félagsliðs sem tekur þátt í HM félagsliða í sumar, þar sem Man City verður einnig þátttakandi.
???? Official: Manchester City confirm they will be erecting a statue of Kevin De Bruyne outside the Etihad Stadium. pic.twitter.com/l8R1bJbqkU
— Fabrizio Romano (@FabrizioRomano) May 20, 2025
Athugasemdir