Liverpool opið fyrir tilboðum í Nunez - AC Milan vill fá Rashford - Ferguson á blaði hjá West Ham
   þri 30. október 2012 11:30
Magnús Már Einarsson
Fjalar Þorgeirs: Sé ekki eftir einni mínútu í KR
Fjalar Þorgeirsson.
Fjalar Þorgeirsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
,,Mig langaði að fara að spila," segir markvörðurinn Fjalar Þorgeirsson sem gekk í gær í raðir Vals.

Fjalar var varamarkvörður hjá KR á síðasta tímabili. Hannes Þór Halldórsson aðalmarkvörður KR gæti verið á leið í atvinnumennsku erlendis en Fjalar ákvað þrátt fyrir það að ganga í raðir Vals þegar það tækifæri bauðst.

,,Málin stóðu þannig að ég hafði þetta tækifæri núna til þess að fara í Val og hugsanlega gæti ég ekki beðið eftir því. KR-ingar hafa líka kannski ekki bolmagn til að hafa tvo markmenn meðan þeir eru að bíða eftir því að Hannes sé seldur. Þetta lá því beinast við."

Bíður spenntur eftir Reykjavíkurmótinu:
Fjalar lék einungis tvo leiki í Pepsi-deildinni í sumar og hann getur ekki beðið eftir að byrja að spila.

,,Þú getur ekki ímyndað þér hvað ég er spenntur. Maður bíður bara eftir Reykjavíkurmótinu núna. Ég tók ákveðinn séns í fyrrahaust þegar það voru ekki margir kostir í boði fyrir mig. Þegar lið eru með frambærilega markmenn eru þau yfirleitt ekki að skipta um markmenn og það var ekki mikil eftirspurn í fyrra. Ég var í viðræðum við ÍBV þá sem gekk ekki upp út af fjölskylduástæðum."

,,Ég ákvað að kýla á að fara í KR og ég sé ekki eftir einni mínútu þar þó að þetta hafi farið svona. Maður fékk að vera þarna í umhverfi þar sem menn ætla að vinna hvern einasta titil og það var skemmtilegt að taka þátt í því þó að maður hafi að sjálfsögðu viljað spila meira."


Fjalar gerði þriggja ára samning við Val en þessi 35 ára markvörður segist eiga nóg eftir.

,,Ef við miðum við aldurinn á Gulla (Gunnleifi Gunnleifssyni) þá hefði ég átt að fá fimm ára samning," sagði Fjalar léttur í bragði.

,,Þeir ætlast greinilega til mikils af mér og ég ætla mér að standa undir því. Ég hef sjaldan verið í betra standi og það verður örugglega ennþá betra þegar Rajko (markmannsþjálfari Vals) mætir á svæðið, hann er víst með góðar æfingar."

Gott ef ÍR, Leiknir og Fjölnir sameinast:
Valur verður fimmta Reykjavíkurfélagið sem Fjalar spilar með á eftir Þrótti, Fram, Fylki og KR. Hann er því á góðri leið með að spila með öllum félögum í höfuðborginni.

,,Ég sagði í djóki við einhvern í gær að það yrði gott ef ÍR, Leiknir og Fjölnir myndu sameinast. Þá yrðu þetta færri félagskipti í viðbót. Ég er búinn að vera í meistaraflokki í 18 ár og það er kannski eðlilegt að maður sé ekki í sama liðinu öll þessi ár. Ég er búinn að vera mestan tímann í Þrótti og Fylki. Ég var eitt ár í KR og eitt og hálft ár í Fylki. Ég ætla mér að vera lengur í Val og ég er bara spenntur," sagði Fjalar að lokum við Fótbolta.net.
Athugasemdir
banner