Branthwaite, Zirkzee og Olise til Man Utd? - Potter til Hollands - Nunez til Barca og Osimhen til Chelsea
   fös 03. október 2014 10:30
Elvar Geir Magnússon
Álitsgjafar svara - Hvort fellur Fram eða Fjölnir?
Framarar misstu stóran bita þegar Ögmundur Kristinsson fór út í atvinnumennsku á miðju tímabili.
Framarar misstu stóran bita þegar Ögmundur Kristinsson fór út í atvinnumennsku á miðju tímabili.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson.
Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Edda Sif Pálsdóttir.
Edda Sif Pálsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Lokaumferð Pepsi-deildarinnar verður á morgun laugardag. Spurning er hvort Fram eða Fjölnir muni fylgja Þór niður í 1. deildina. Fram er með 18 stig í fallsæti en Fjölnir er í tíunda sæti með 20 stig.

Stöðuna má sjá neðst í fréttinni en Fjölnir á heimaleik gegn ÍBV og dugir jafntefli. Fram þarf að vinna Fylki á Laugardalsvelli og treysta á hagstæð úrslit í Grafarvoginum.

Fótbolti.net fékk fimm álitsgjafa til að svara spurningunni: Spáirðu Frömurum falli og ef svo er hvað var það helst sem fór úrskeiðis hjá þeim í sumar að þínu mati?

Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, Morgunblaðinu:
Fram fellur líklegast já. Það er ekkert eitt sem fór endilega úrskeiðis. Liðið er bara ekki nógu gott þó það séu nokkrir fínir og spennandi leikmenn í Fram. En sama hvort Fram fellur eða ekki, þarf að styrkja vörnina myndi ég halda fyrir næstu leiktíð.

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari ÍA:
Ég gæti vel trúað að Fram klári Fylki en ég held að það dugi því miður ekki. Ég held að Fjölnir nái þessu stig sem þeir þurfa vegna þess að markatafla þeirra er miklu betri. Ég held eftir allt séu þetta of drastískar breytingar hjá þeim frá því í fyrra - þá spila 13 leikmenn fleiri en 10 leiki hjá þeim og aðeins 3 af þeim hófu tímabilið í vor, einn af þeim er Ögmundur markmaður og fyrirliði þeirra en hann er floginn út eftir aðeins 10 leiki. Þeir hafa átt í erfiðleikjum að finna hrygginn í sumar og lítill stöðugleiki verið á varnarlínunni og ekki hjálpaði til að missa þeirra besta mann, Ögmund, út á miðju tímabili.

Edda Sif Pálsdóttir, sjónvarpskona á Stöð 2:
Þeir hafa svo oft náð að bjarga sér á síðustu metrunum en ég held að þeir geri það ekki núna og falli niður í fyrstu deild. Þessar miklu breytingar gengu ekki upp í þetta skiptið, á þessum tíma, og liðið spilaði einfaldlega ekki nógu vel í sumar. Þeir brotnuðu auðveldlega við mótlæti og misstu líka mikið þegar Ögmundur, markmaður og fyrirliði, fór út um mitt tímabil.

Davíð Snorri Jónasson, þjálfari Leiknis:
45 mörk á sig er í heildina og 3,25 mörk að meðaltali á sig í síðustu fjórum leikjum er of mikið. Þeir þurfa að stokka vel í varnarleiknum til að vinna þennan leik, fara að vinna návígi og seinna bolta. Andstæðingurinn er Fylkir og þeir þurfa að vinna til að eiga séns á Evrópusæti. Ég hallast að Fylkissigri og mun hraðinn í Alberti Brynjari nýtast þegar Fram þarf að fara fram á völlinn til að ná í stigin.

Varnarleikur liðsins í sumar hefur ekki verið góður og það yfirleitt er ávísun á slæmt gengi. Endurnýjunin á hópnum var kannski of mikil og er alveg spurning hvort það hefði átt að fara hægar í hana. Margir leikmenn að spila í fyrsta skiptiaf einhverri alvöru í Pepsi deildinni. Það tekur tíma fyrir allar þessar breytingar að tikka inn og eins og staðan er í dag þá er tíminn líklega of naumur til að liðið lifi þetta af. Þeir segjast vera með plan og þá hljóta þeir að vera með það klárt hvort sem liðið fellur eða ekki.

Þeir hefðu átt að undirbúa brottför Ögmundar betur hvort sem þeir falla eða ekki. Þótt tölfræðin sýni að munurinn á mörkum fengnum á sig eftir að hann fer sé ekki svo mikill þá misstu þeir toppleikmann og leiðtoga úr hópnum.

Óli Stefán Flóventsson, fótboltaþjálfari:
Framarar eru í vondri stöðu. Ég þekki þessa stöðu vel enda verið í henni alltof oft sjálfur. Þetta hefur verið á margan hátt erfitt sumar fyrir Fram. Þeir hafa gríðarlega efnilegan þjálfara sem fékk það hlutverk að byggja alveg upp nýtt lið. Það getur tekið tíma og verið erfitt fyrir ungt lið að lenda í mótlæti eins og þeir hafa verið í í sumar. Fram er samt í þeirri stöðu að þurfa að vinna leikinn og sjá svo til hvað gerist í öðrum leikjum. Þeir eiga eingöngu að hugsa um sitt verkefni því annað er ekki í þeirra höndum. Ég held að þeir vinni leikinn en falli, því miður fyrir þennan risa klúbb.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner