Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
   mið 15. júlí 2015 21:43
Elvar Geir Magnússon
„Gunnar var frábær og hélt okkur inni í þessu"
Gunnar Nielsen varði víti í Skotlandi.
Gunnar Nielsen varði víti í Skotlandi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gunnar Nielsen, færeyskur markvörður Stjörnunnar, átti frábæran leik á Celtic Park í kvöld. Celtic vann 2-0 sigur í fyrri leiknum gegn Íslandsmeisturunum í undankeppni Meistaradeildarinnar en Gunnar átti nokkrar magnaðar vörslur.

„Hann var frábær og hélt okkur inn í þessum leik. Hann var snöggur niður og sýndi gríðarlega góða frammistöðu. Hann varði mjög vel og svo var bónus að ná að verja víti að auki," sagði Fjalar Þorgeirsson, markmannsþjálfari Stjörnunnar.

Gunnar kom í veg fyrir að Celtic kæmist í 3-0 þegar hann varði vítaspyrnu frá Leigh Griffiths og kórónaði góða frammistöðu sína.

„Það var frekar súrt að ná ekki að fara inn í hálfleikinn með 0-0. Þeir tóku snöggt horn þarna á 44. mínútu og það riðlaði dekkningunni hjá okkur. Það hefði verið ljúft að komast með jafntefli inn í hálfleikinn," sagði Fjalar.

Hefðum getað skorað
„Við hefðum getað laumað á þá marki, við fengum tvö mjög fín færi til að jafna. Strax eftir það seinna skora þeir og það var högg fyrir okkur."

„Það er alltaf möguleiki fyrir seinni leikinn eftir 2-0. Það er alltaf möguleiki í fótbolta en það er alveg ljóst að allt þarf að ganga upp hjá okkur og Gunnar þarf að eiga annan stórleik."

Það var gríðarleg stemning á Celtic Park í kvöld.

„Það var magnað að vera á vellinum enda yfir 50 þúsund áhorfendur. Það er örugglega geggjað að spila svona leik í hverri viku. Stemningin var frábær en menn urðu ekkert „star-strucked" enda með reynsluna frá svona stórum leikjum eftir þátttökuna í Evrópukeppninni í fyrra," sagði Fjalar.

Seinni leikurinn verður á miðvikudaginn í næstu viku á Samsung-vellinum í Garðabæþ
Athugasemdir
banner
banner