Atli Viðar Björnsson - FH
Markahrókurinn Atli Viðar Björnsson skoraði tvö mörk þegar Íslandsmeistarar FH unnu 3-1 útisigur gegn ÍA í vikunni. Atli er leikmaður umferðarinnar en hann var að vonum kátur eftir þennan sterka sigur gegn heitu liði Skagamanna.
„Þetta var heitasta lið landsins þegar við mættum þarna. Við vorum vel undirbúnir og komum klárir í þennan leik," segir Atli.
Einhverjar vangaveltur sköpuðust um að fyrra mark Atla í leiknum hefði átt að skrást sem sjálfsmark en erfitt var að greina það á upptökum.
„Ég vissi af þessari umræðu. Ég sparkaði allavega í boltann þegar markvörðurinn sparkaði honum frá sér. Hvort skotið hafi haft einhverja viðkomu á leiðinni veit ég ekki."
Ætlum að koma okkur á betra ról
FH hefur tveggja stiga forystu á toppi deildarinnar en Stjarnan fylgir á hæla Hafnfirðinga. Margt bendir til einvígis milli þessara liða um titilinn.
„Þetta var góður sigur og mikilvægur fyrir okkur. Við höfum ekki verið í of góðum gír að undanförnu. Við ætlum okkur að komast á betra ról og klára sumarið í betri málum. Í augnablikinu er Stjarnan næst okkur. Þeir hafa mjög flottan mannskap og stóran og öflugan hóp. Þeir þekkja að vinna titilinn og það kemur mér ekki á óvart að þeir vilji taka þátt í baráttunni fram í síðasta leik. Það eru fleiri flott lið þarna. Við afskrifum ekki Blikana til dæmis. Það er of snemmt að skrá þetta sem tveggja hesta hlaup," segir Atli.
Strax komin tilhlökkun
Með mörkunum tveimur gegn ÍA er Atli nú sá leikmaður sem skorað hefur flest mörk fyrir eitt félag í efstu deild. Hann hefur skorað 111 mörk fyrir FH
„Ég vissi af þessari tölfræði, ég hafði séð hana. En ég er ekki neitt upptekinn af þessu og er ekki mikið að spá í þetta þó þetta sé vissulega gaman."
Er hann ekki að stefna á að slá met Tryggva Guðmundssonar sem á markametið í efstu deild, 131 mark?
„Nei ef ég er fullkomlega hreinskilinn þá er það ekki á markmiðalistanum mínum. Það eru 20 mörk í þetta og ég tel það heldur ekki raunhæft eins og staðan er í dag. Það væri ekki gáfulegt af mér að setja þannig markmið," segir Atli léttur.
Næsti leikur FH er sannkallaður stórleikur gegn KR í Kaplakrikanum á mánudagskvöld.
„Leikir milli FH og KR eru skemmtilegir og yfirleitt mikil stemning. Það er strax komin tilhlökkun í okkur. Við verðum vel peppaðir og klárir. Ég hlakka til."
Sjá einnig:
Bestur í 12. umferð - Róbert Örn Óskarsson (Víkingur R.)
Bestur í 11. umferð - Óskar Örn Hauksson (KR)
Bestur í 10. umferð - Halldór Orri Björnsson (Stjarnan)
Bestur í 9. umferð - Garðar Gunnlaugsson (ÍA)
Bestur í 8. umferð - Birnir Snær Ingason (Fjölnir)
Bestur í 7. umferð - Davíð Þór Viðarsson (FH)
Bestur í 6. umferð - Gunnleifur Gunnleifsson (Breiðablik)
Bestur í 5. umferð - Viðar Ari Jónsson (Fjölnir)
Bestur í 4. umferð - Einar Hjörleifsson (Vikingur Ólafsvík)
Bestur í 3. umferð - Heiðar Ægisson (Stjarnan)
Bestur í 2. umferð - Martin Lund Pedersen (Fjölnir)
Bestur í 1. umferð - Aron Bjarnason (ÍBV)
Stöðutaflan
L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Athugasemdir