Húsvíski miðvörðurinn Hallgrímur Jónasson skrifaði í dag undir fjögurra ára samning við KA en hann hefur verið í atvinnumennsku síðan 2009.
Í viðtali við heimasíðu KA segist Hallgrímur hafa fylgst með KA á liðnu tímabili en liðið hafnaði þá í sjöunda sæti sem nýliði í deildinni.
„Ég mætti á Valsvöllinn og sá þá spila þar. Ég var mjög hrifinn af leiknum gegn FH úti, liðið spilaði flottan fótbolta og þorði. Þetta er vel spilandi lið og fullt af Húsvíkingum. Mér lýst vel á þetta," segir Hallgrímur.
Mikil hefð er fyrir Húsvíkingum í liði KA en Elfar Árni Aðalsteinsson, Ásgeir Sigurgeirsson og bræðurnir Hallgrímur og Hrannar Steingrímssynir eru allir frá bænum.
„Ég þekki þá alla. Ég hef æft með þeim þegar ég hef verið að koma heim, bæði í sumar- og vetrarfríum. Svo var pabbi minn að þjálfa hjá Völsungi og þjálfaði þá flesta. Ég þekki þá bæði í boltanum og fyrir utan völlinn."
Viðtalið er birt með leyfi heimasíðu KA og má sjá það í heild í sjónvarpinu hér að ofan. Þar ræðir meðal annars um þjálfunarstarf sitt en hann sér um afreksþjálfun yngri flokka KA.
Athugasemdir