Arnar Grétarsson, fyrrum yfirmaður knattspyrnumála hjá AEK Aþenu og Club Brugge, ætlar ekki að sækja um starf yfirmanns knattspyrnumála hjá KSÍ.
Umrætt starf hefur mikið verið í umræðinni síðan Guðni Bergsson talaði um að setja það á laggirnar fyrir tæplega tveimur árum, þegar hann sóttist eftir formennsku KSÍ.
KSÍ auglýsti starfið á dögunum en umsóknarfrestur rennur út á fimmtudag. Arnar ætlar hins vegar ekki að sækjast eftir starfinu.
„Ég hef ekki áhuga á því," sagði Arnar í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu á laugardaginn aðspurður hvort hann ætlaði að sækja um stöðuna hjá KSÍ.
„Ég vona innilega að þeir finni góðan aðila og hann komi til með að gera þá hluti sem þeir vænta. Mér fannst auglýsingin vera svolítið opin hvað aðilinn á að gera og hvað varðar hæfniskröfur og annað."
„Það eru ekki allir á sömu braut hvað varðar þessa stöðu. Það eru búnir að vera erfiðleikar hjá Guðna að koma þessari stöðu í gegn og ég veit ekki hvort það sé málamiðlun að henda þessu inn. Ég vona innilega að það komi flottur aðili inn, það sé skýrt hvað hann á að gera og við verðum ánægðir með það. Við höfum verið að gera mjög flotta hluti í íslenskri knattspyrnu, það er bjart framundan en það eru samt hlutir sem við getum lagað og gert betur."
Hafnaði spennandi tilboði frá Kýpur
Arnar hafnaði á dögunum boði um að gerast yfirmaður knattspyrnumála hjá meisturunum í Apoel á Kýpur.
„Ég hafnaði starfi erlendis sem er að mínu viti miklu meira spennandi en þetta starf (hjá KSÍ). Þeir voru tilbúnir að gera miklu meira en gengur og gerist til að fá mig. Það var ekki auðveld ákvörðun að fara að rífa alla fjölskylduna upp í þriðja skipti sem ég kem heim úr atvinnumennsku."
Apoel hefur orðið meistari í Kýpur sex ár í röð og náð athyglisverðum árangri í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni.
„Ég átti að sjá um allt og þetta er rosaleg vinna. Ég átti að vera á öllum æfingum, sjá um að finna leikmenn, semja við þá, losa leikmenn og vera á öllum æfingum með þjálfurunum. Þetta var rosalega spennandi."
Arnar hafði rætt við íslenskan þjálfara um að koma með sér til Apoel. „Ég hafði ákveðinn Íslending í huga til að taka með mér sem þjálfara. Þessi ákveðni aðili hafði áhuga á því en síðan tók ég þá ákvörðun að gera þetta ekki. Síðan stendur maður og fellur með því," sagði Arnar í útvarpsþætti Fótbolta.net.
Smelltu hér til að hlusta á viðtalið við Arnar í heild. Umræða um starfið hjá KSÍ byrjar á 1:12:00.
Athugasemdir