Rodrygo íhugar að fara frá Real Madrid - Man Utd og Juventus á eftir Ederson - Kane ætlar að vera áfram hjá Bayern
   fim 18. janúar 2007 11:12
Hafliði Breiðfjörð
Halla Gunnarsdóttir býður sig fram til formanns KSÍ
Halla á fréttamannafundinum í dag.
Halla á fréttamannafundinum í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Mist Rúnarsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
Kvennalandslið Íslands.
Kvennalandslið Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Jón Steinarr
Halla Gunnarsdóttir þingfréttaritari Morgunblaðsins tilkynnti á fréttamannafundi í morgun að hún hyggist bjóða sig fram til formanns KSÍ. Eggert Magnússon núverandi formaður mun láta af starfinu á næsta aðalþingi sambandsins í febrúar og áður höfðu tveir aðilar tilkynnt um framboð. Það eru þeir Geir Þorsteinsson framkvæmdastjóri KSÍ og Jafet Ólafsson hjá VBS.

Halla hefur frá unga aldri lagt stund á knattspyrnu og starfað sem þjálfari bæði hér heima og erlendis. Hún leggur áherslu á þann jákvæða kraft sem býr í knattspyrnunni og telur að knattspyrnuiðkun hafi mikið forvarnargildi. Einnig sé knattspyrna gott tæki til að vinna gegn fordómum og efla sjálfsmynd og samstöðu fólks. Halla vill fótbolta fyrir alla.

Halla hefur víðtæka reynslu af félags- og stjórnunarstörfum. Halla er kennari að mennt en undanfarin ár hefur hún unnið sem blaðamaður, sem þáttastjórnandi í sjónvarpi og fyrirlesari en starfar nú sem þingfréttaritari fyrir Morgunblaðið sem fyrr sagði.

Á fréttamannafundinum í morgun hélt Halla ræðu sem má lesa hér að neðan í heild sinni:


Ég vil auðvitað byrja á að þakka ykkur fyrir að koma enda málefnið mikilvægt, um er að ræða forsvarsmann stærstu íþróttahreyfingar landsins.

Ég þarf varla að fjölyrða um gildi íþrótta í forvarnarstarfi, eflingu félagsþroska, og hvers annars sem sérfræðingar fróðari mér hafa sýnt fram á. Íþróttasamand Íslands hefur lengi notað slagorðið Íþróttir fyrir alla. Eðlilegt er að Knattspyrnusamband Íslands tileinki sér þessa hugsun og tali fyrir knattspyrnu fyrir alla.

Því miður hefur það stundum ekki verið raunin.

Þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar undanfarin ár þá hefur Knattspyrnusambandið stundum gleymt sér og einblínt um og of á afreksknattspyrnumenn. Það hefur komið niður á þeim sem síst mega við því.

Starfsemi yngri flokka er og verður hornsteinn knattspyrnu á Íslandi. Að henni þarf að hlúa.

Undanfarin ár hefur verið unnið mikið starf í þágu knattspyrnu barna. Ber þá hæst uppbygging sparkvalla um allt land sem gefa börnum tækifæri á að leika sér í fótbolta, án þess að það þurfi allaf að vera bundið við skipulagðar æfingar. En enn kemur það þó fyrir að börn hrökklist út úr íþróttinni með lítið sjálfstraust. Þarna skiptir menntun þjálfara höfuðmál.

Annað er þó verra og það er hvernig staðið hefur verið að kvennaknattspyrnu á landinu undanfarin ár. Kvennalandsliðið, sem hefur staðið sig með sóma á alþjóðavettvangi, hefur fengið skammarlega lítinn stuðning. Sama má segja um úrvaldsdeild kvenna en skemmst er að minnast umræðu um skiptingu verðlaunafjár milli kvenna- og karladeildarinnar.

Meðan ástandið er svona hjá bestu knattspyrnukonum landsins er augljóst að ekki er vel hlúð að þeim sem yngri eru.
Í þessum efnum þarf eina allsherjar tiltekt.

Að þessu sögðu, vil ég tilkynna hér formlega framboð mitt til formanns Knattspyrnusambands Íslands.
Athugasemdir
banner
banner